23.1.2013 | 16:19
1862 - VG
Að skrifa eins og þeir snobbuðu vilja að skrifað sé, er að skrifa sem illskiljanlegast og reyna að slá um sig með nógu sjaldgæfum orðum, helst mörgum til að þeir þurfi að gúgla á núll komma fimm áður en þeir fara í mogunmat. Alsniðugast væri ef hægt væri að ljúga einhverju að Gúglhænunni áður en sá snobbaði kemst í tölvuna. Ég vil heldur vera álitinn einfeldningur en að skrifa eitthvað sem ég skil varla sjálfur. Mér finnst það slæmur ávani hjá bókmenntagagnrýnendum að ímynda sér sífellt að þeir þurfi helst að líta út fyrir að vera gáfaðri en sá sem setti saman það sem þeir eru að gagnrýna. Aftur á móti eiga svokallaðir rithöfundar það til að setja saman gagnrýnisgreinar sem eru betri en hjá flestum gagnrýnendum þó erfitt sé að skilja skáldsögurnar þeirra. Nú er ég að verða lítt eða tor skiljanlegur svo það er best að hætta. Þeir sem ekki skilja þetta mega sleppa því.
Í sem allra stystu máli lít ég þannig á alþjóðastjórnmálin. Bandríkin eru of skuldug til að geta tekið yfir allt sem alþjóðakommúnisminn skildi eftir þegar hann var búinn að stela 70 árum af ævi fólks á þeim slóðum. Kína mun hægt og sígandi taka við hlutverki forysturíkisins og nýtt kalt stríð taka við. Vonandi hitnar það aldrei. Ísland á auðvitað hvergi heima nema í ESB og þar ættu þeir að reyna að koma sér fyrir á milli fyrrum stórveldanna (Frakklands og Þýskalands) og Norðurlandanna og njóta þess að vera á undan Norðmönnum. Suðrið er svolítið aftarlega á merinni eins og er en fólkið þar er duglegt og útsjónarsamt og kemur til með að hafa áhrif á ESB. Erfitt er að spá Bretum nokkurri sérstakri framtíð innan ESB. Ætli þeir verði ekki bara reknir þaðan. Norðmenn koma hinsvegar inn seint og um síðir og verða eitt helsta fyrirmyndarríki ESB.
Því skyldi ég ekki reyna að láta ljós mitt skína í alþjóðastjórnmálum? Ég þykist hvort eð er allt vita. Við besservisserarnir höfum ekki í annað skjól að venda en spádómana. Gúgli er búinn að taka staðreyndirnar frá okkur. Það er bara einhver óljós tilfinning eftir. Tilfinning um að hafa einu sinni í fyrndinni vitað ýmislegt. Jafnvel af hverju himininn er blár.
Stjórnunarfælni er það sem hrjáir VG. Það segir Teitur. http://www.dv.is/blogg/eimreidin/ Ég tek mark á öllum sem ég skil. Þannig var það eitt það versta sem hægt var að gera vinstri grænum að teyma þá í ríkisstjórn. Þeir hafa nefnilega þörf fyrir að vera á móti öllu. Einhversstaðar verður þvílíkt fólk að vera. Steingrímur hefur samt staðið sig nokkuð vel, en það eru bara fleiri í flokknum. Og það er ekki hægt að segja að hann sé stjórntækur.
Ef sjálfstæðismenn og vinstri grænir fara saman í ríkisstjórn eftir næstu kosningar geri ég hiklaust ráð fyrir að fljótlega slitni uppúr því samstarfi. VG lætur ekki teyma sig hvert sem er. Samfylkingin hafði tak á þeim en það er alls ekki víst að sjálfstæðismenn nái slíku taki.
Mér þykir nokkuð langt gengið að líkja pizzum við mat eins og sumir gera. Í besta falli er hægt að bera þær saman við heitar samlokur sem venjulega eru þó miklu betri. Ekki veit ég hvernig sá siður komst á að kalla pizzur mat, en það eru áreiðanlega nokkur ár síðan. Krökkum þykir gott að fá pizzur en það er líklega vegna þess að þau fá sjaldan annað betra.
Textar Ríó-tríósins voru oft fyndnir. Man t.d. eftir þessu:
Lýsnar og flærnar bíta mig, segir prestur.
O, bíttu þær aftur, góurinn minn, segir prestsins kona (gott ef ekki með rödd Helga Péturssonar.)
Eftirminnilegt er líka:
Verst af öllu er i heimi
einn að búa í Reykjavík.
Kúldrast uppi í kvistherbergi
í kulda og hugsa um pólitík.
Athugasemdir
Textinn þessi er úr Gilsbakkaþulu "Þar bíta mig flær og lýs"
segir prestur.
"Bíttu þær aftur góurinn minn" segir prestsins kona.
Gilsbakkaþula er sennilega frá þar síðustu öld. Hún á svo sannarlega við á öllum tímum. Kveðja.
jóhanna 24.1.2013 kl. 11:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.