1837 - Setjum lesvörn á fésbókina

Veit svosem ekki hvað ég á að skrifa um. Er nýbúinn að setja eitthvert þrugl á bloggið og þá er ég oft í bestu stuði til að skrifa. Hvernig skyldi standa á því? Ekki veit ég hvað ég ætti af mér að gera ef ég hefði ekki bloggið. Ekki gæti ég verið endalaust að velta fyrir mér næsta leik í einhverri bréfskákinni. Og þó, nógu eru þær margar. Eða lesið villt og galið í kyndlinum mínum og skoðað bækur þar. Þetta tvennt nota ég þó oft til tímajöfnunar og velti þá vöngum eftir þörfum.

Eftir að ég komst á þennan ágæta aldur (70 ár) er gott að vera laus við að þurfa að mæta í vinnu. Nóg er að gera samt.

Lesvörn sú sem sett er á íslenskar rafbækur veldur miklum vandræðum eins og búast mátti við. Útgefndur hér kenna Amazon um, en það er ekki að öllu leyti sanngjarnt. Þeir ættu að geta treyst kaupendum sínum til að dreifa bókunum ekki. Miðað við verðið á þeim ætti það ekki að vera erfitt. Á meðan verð ég að láta mér nægja að fá ekki íslenskar rafbækur, a.m.k. ekki þær vinsælustu í kyndilinn minn. Hinsvegar er mikið um tilboð og ókeypis rafbækur í kynningarskyni á Amazon og það er þægilegt að geta fengið þær beint í kyndilinn. Þetta er bara VHS og Betamax stríðið uppá nýtt. Spurningin er hve langur tími líður þar til eitt formattið verður ofaná. Mesta tjónið sem útgefendur valda með þessu er að fæla fólk frá bókum á íslensku og að erlendum málum og er það illa gert.

Því er haldið fram í þessu bloggi http://www.washingtonsblog.com/2012/12/facebook-purges-political-activists.html að Facebook ritskoði þar efni sem þangað er sett. Ef til vill er of mikið gert úr þessu en reynsla er fyrir því að stórfyrirtæki hagi sér með vafasömum hætti.

Óveðrið sem geysað hefur í dag sneiðir greinilega hjá höfuðborgarsvæðinu. Ekki veit ég hvers vegna það er, en snjórinn er samt óþarflega mikill hér um slóðir. Þungur er hann líka og í sjónvarpsfréttum var sagt að hann hefði brotið tré.

Ég er sammála Jónasi Kristjánssyni um það að ótækt sé að enn skuli rifist um það, fjórum árum eftir Hrun, hvort feðgar séu lagatæknilega séð tengdir aðilar. Ef dæma má eftir frétt RUV um PWC-málið gætu 100 milljarðar oltið á þeirri skilgreiningu. Ekki er þó víst að þessi skilgreining sé það eina sem deilt er um.

IMG 2264Gangstéttar eru stundum svona í Kópavogi. Mjóar og mosavaxnar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband