1826 - Heimssýn og VG

Sennilega er fjöskyldufréttum ekki vel dreift af mér, þó ég sé fremur duglegur að blogga. Aðrir standa mér framar í því og sennilega er réttast að skoða fésbókina vandlega til að finna slíkt. Sé eftir því sóst.

Netlíf fólks er oft stórmerkilegt. Kannski fer þeim fjölgandi sem forðast slíkt. Fræga fólkið má sannarlega vara sig á skelfinum mikla Eiríki Jónssyni. http://eirikurjonsson.is/ DV.is, Morgunblaðið og fleiri standa sig einnig oft ágætlega við að segja fréttir af því. Kannski dreifa fleiri slíkum fréttum með mikilli ánægju, ég fylgist bara ekki með því og það er gott að vera laus við að vera á milli tannanna á Eiríki.

Fullveldissinnar er orð sem Heimssýnar-menn nota mjög mikið og ljá því þá merkingu sem best hentar hverju sinni. Merkingin virðist aðallega vera sú að allir „fullveldissinnar“ séu í samtökunum Heimssýn og að þeir sem styðja hugsanlega inngöngu Íslands í ESB, og vilja ekki slíta viðræðunum við sambandið undir eins, séu alls ekki „fullveldissinnar“. Slík tilraun til að hafa áhrif á tungumálið er dæmd til að mistakast. 

Nú virðast VG-ingar og Heimssýnarmenn vera komnir í hár saman. (Þeir sem hafa hár.) Þegar Bjarni frændi lýsti því yfir að hann mundi kjósa vinstri græna því hægt væri að treysta þeim til að vera á móti ESB grunaði mig alltaf að sú andstaða væri plat.

Enda fór það svo að þeir voru fljótir að láta andstöðuna við sambandið í skiptum fyrir ráðherrastóla og mér er enn í minni hve búralegur Steingrímur Jóhann var þegar hann fékk lyklana að fjármálaráðuneytinu.

Eins ósanngjarnt og það er má segja að mestar líkur séu á því að Vinstri grænir tapi mest í kosningunum í vor. Hverjir græða þá mest? Það hljóta að verða nýju flokkarnir. Ég trúi því ekki að hrunflokkarnir verði þeir einu sem bæta við sig.

Áætlað er, svo virðist vera, gert er ráð fyrir, búist er við, framkvæmdastjóri Lýsisáburðarfélagsins segir o.s.frv. Já, listinn er endalaus yfir það hvernig kjaftasögu-frásagnirnar byrja gjarnan. Eiríkur Jónsson er ekkert einn um að dreifa þeim. Blöð og bloggarar geta aldrei orðið svo virðuleg að þau hætti að dreifa kjaftasögum. Sérstaklega ekki Mogginn. Afar fáir ef nokkrir íslenskir blaðamenn virðast hafa þá gömlu reglu í heiðri að frétt sé ekki frétt fyrr en hún er komin til þeirra nokkurn vegin samhljóða úr tveimur áttum.

Bloggurum er svolítil vorkunn því þeir eru flestir bara með þetta í hjáverkum. Gallinn er sá að margir trúa blaðsneplunum og vefmiðlunum í blindni og dreifa alskyns vitleysu. Sérstaklega ef hún er útlend að uppruna.

IMG 2216Tré í vetrarbúningi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband