1814 - Um sjálfhverfu kynslóðina

Svanur Gísli Þorkelsson bloggar af fullum krafti hér á Moggablogginu og kallar mig sjálfhverfan bloggara, sem hafi sérhæft sig í að blogga um blogg. Sjálfur skrifar hann mjög fróðleg blogg um hitt og þetta. Í seinni tíð hefur hann sérhæft sig í að skrifa um íslenska ferðamannastaði og er það vel.

Nýlega skrifaði hann um Kerið í Grímsnesi http://svanurg.blog.is/blog/svanurg/entry/1269525/ og þess undarlegu sögu. Ég er ekki frá því að Kereigendur séu í þann veginn að tapa því máli. Sjálfur hef ég oft stoppað við Kerið og það er svo sannarlega merkileg náttúrusmíð. Um daginn skrifaði ég um grein hans um Þorláksbúð í Skálholti, sem ég á eftir að sjá, (altsvo búðina, en ekki greinina) og ég gat ekki annað en lesið. Vinnan við þessar athuganir hans er eflaust mikil og hann á skilið að þær séu lesnar.

Fyrir nokkrum árum hafði samband við mig ritstjóri „Heima er best“ og vildi að ég skrifaði fyrir sig. Aldrei birtist þó nema ein grein eftir mig í því ágæta blaði. Mig minnir að ég hafi viljað skrifa um Bjarna-Dísu en ritstjórinn ekki. Tvær ástæður eru til að ég minnist á þetta hér og nú. Önnur er sú að greinar Svans Gísla mundu að mínum dómi henta mjög vel í blaðið „Heima er best“ og hin er sú að nú er komin út heil bók um Bjarna-Dísu. Kannski fæ ég hana lánaða á bókasafninu þegar sá tími kemur. Ekki þarf ég víst að vonast til að hún komi í Kyndilinn minn.

Einhver benti mér á það um daginn hér í athugasemdum að lesa bloggið hans Hrannars Baldurssonar um sjálfhverfuna. Nú er ég búinn að því. Sé ekki betur en Hrannar telji hana henta póltíkusum mjög vel. Það er sennilega rétt. Mér finnst að hún henti líka heimspekingum og hvers kyns besservissurum ákaflega vel. Jafnvel bloggurum.

Já, ég mun vera af sjálfhverfu kynslóðinni og get ekki gert að því. Eða var það annars sjálftökukynslóðin. Ég ruglast alltaf í þessu. Les jafnan það sem Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri bloggar á jonas.is. Nú er hann farinn að hælast um vegna heimsókna til sín. Þar finnst mér hann gera mistök. Auðvelt er að hafa heimsóknartölur allar inni eða úti. Þ.e.a.s. þar sem allir geta séð þær og þurfa ekki að vera að giska á neitt. Moggabloggið býður a.m.k. uppá það. Reyndar er það einn af fáum fídusum þess, sem ég hef þorað að nota mér.

Sennilega er gúgl-efnið að komast yfir skynsamleg mörk. Þau eru einhversstaðar. Á endanum verður efnið þar svo mikið að erfitt verður að gera greinarmun á bullinu og gullinu. Wikipedia er betri. Þar er þó gerð tilraun til að flokka efnið. Ef gúglið skilar wiki læt ég það ganga fyrir flestu öðru.

IMG 2010Geit

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband