1799 - Vinstri Gramir

Einu sinni voru bókabúðir uppáhaldsbúðirnar mínar. Þar gat ég staðið löngum stundum við að skoða bækur, blaða í þeim og  lesa jafnvel nokkur orð. Nú er þetta aftur orðin eftirlætisiðja mín en með nokkrum breytingum þó. Nú ligg ég afturábak í rúminu mínu og skoða í kyndlinum allt það úrval rafbóka sem Amazon hefur uppá að bjóða og ekki er það lítið. Ekki get ég þó blaðað í bókunum á sama hátt og í búðunum forðum og svo er úrvalið talsvert breytt þó yfirgripsmikið sé. Ég get lesið um bækurnar, fengið sýnishorn og skoðað fyrstu kaflana eða svo án endurgjalds. Ákveðið kannski að kaupa og framkvæmt það án þess að reisa mig upp. Bókin kemur svo strax og er aðgengileg til lestrar undireins. Ekki verður neitt tré fyrir barðinu á mér, en lína gæti bæst við í næsta Visareikning. Einhverjir gætu kallað þetta framfarir eða að þetta sé gert til að við gamlingjarnir skríðum síður útum gluggann í leit að spenningi.

Nú flýja menn unnvörpum það sökkvandi skip sem alþingi Íslendinga er orðið. Kannski verður endurnýjunin þar meiri í kosningunum í vor en nokkur gerir sér í hugarlund um þessar mundir þegar prófkjörin virðast ráða öllu. Vonum það a.m.k.

„Hefur sú andlega spektin sem hingað til hefur einkennt vinstri græna nú yfirgefið þá og gert suma þeirra a.m.k. bara vinstri grama?“

„Eigi veit eg það svo ofboðslega gjörla en hitt veit eg að Steingrímur hefur að mestu misst stjórn á þessu liði sínu og tvístrast það nú í allar áttir.“

„Sem minnir mig á það að mig vantar endilega frambjóðanda í Landakotsprestakallið. Hafa sum þeirra ekki svolítinn kjörþokka og svoleiðis?“

„Jú, það held ég.“

Ekki veit ég hvaðan þetta samtal kemur. Ekki er orðlagið líkt neinu nema sjálfu sér. (Og mér – kannski.) Svona verða kjaftasögur til. Einhver sem les þetta gæti haldið að samtalið væri raunverulegt. Þarf ég alltaf að taka fram að ég sé að spinna einhvern fjárann upp. Duga gæsalappirnar ekki? Á ég að setja broskall á eftir? Það er vandlifað, ef maður má ekki búa eitthvað til, þegar maður er í þannig skapi.

Nú er held ég kominn þriðjudagur (Kosningadagur í Bandaríkjunum) og ekki útilokað að ég setji þetta á bloggið mitt fljótlega. Hingað til hafa fjölmiðlar hamast við að fjölyrða um hve tvísýnar forsetakosningarnar þar væru. Þær eru það alls ekki. Obama vinnur þetta auðveldlega og það hefur verið alveg ljóst frá því í sumar. En auðvitað verða fjölmiðlarnir að selja sig og ef skoðanakannanirnar eru nógu margar (sem þær eru í Bandaríkjunum) er alltaf hægt að finna eina og eina sem hægt er að láta stemma við hvað sem er.

IMG 1767Háskólinn í Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband