1794 - Kosningar og blogg

Akkurru er ég alltaf að þessu? Skil það ekki. Sum bloggin mín eru svo ómerkileg að ég hálfskammast mín fyrir að gera Moggatetrið ábyrgt fyrir ósköpunum. En svo batnar mér ósegjanlega mikið ef ég fer að skoða b2.is og ég tala nú ekki um ef ég lít á flickmylife.com

Jú, annars ég veit af hverju þetta er. Það er útaf teljaranum. Ef ég skrifa ekkert hreyfist hann varla. Ef ég aftur á móti skrifa einhverja vitleysu og sendi út í eterinn þá er hann vís til að fara alla leið uppá háa séið. Verst að ég veit aldrei hvað hann gerir.

Margir gamlingjar eru þannig gerðir að þeir eru hættir að hafa ánægju af nokkrum hlut. Það er helst að þeir geti fundið til hennar með því að borða góðan mat. Eða eins og segir í vísunni frægu, sem NOTA BENE er ekki eftir mig:

Ég áður hafði áform glæst
engin þó að hafi ræst.
En nú er það mín hugsjón hæst.
„Hvenær verður étið næst?“

En það er illa komið fyrir þeim sem enga ánægju hafa af neinu nema að éta. Sumir eru alltaf að reyna að finna ástæður til að halda uppá eitthvað með matarveislu. Helst vilja þeir auðvitað að aðrir sjái um þær. Bæði er það hampaminnst og þar að auki langódýrast. Best er samt að hafa eitthvað fyrir stafni.

Auðvitað eru það engin ný sannindi. Þetta hefur lengi verið vitað, en eftir að bloggið kom til sögunnar er vel hægt að snúa stefninu í bloggáttina og hafa það sífellt fyrir stafni. Bloggið er mun skárra en skrifborðsskúffan í þessu tilliti. Svo losnar maður alveg við leiðréttingar og endurskriftir. Vorkenndi alltaf Auði greyinu að þurfa að vera að skrifa upp aftur og aftur bullið í Dóra. Æ, nú er ég farinn að bulla sjálfur.

Fór í dag niður í Ráðhús Reykjavíkur með konunni minni til að sækja myndina sem hún átti á sýningu Félags frístundamálara þar. Kalt var og hvasst en slysalaust gekk að koma myndinni í bílinn.

Ég sé framá að talsverður ófriður verður á fésbók vegna kosninganna. Sífellt er verið að bjóða manni á fundi og þess háttar. Ekkert einkennilegt við það. Einhvernvegin verður fólk að koma sér á framfæri og bókin kostar þó ekki neitt ennþá. Verst hvað allir eru að flýta sér mikið. Mér finnst ekkert liggja á. Margt bendir til að prófkjörin verði sum jafnspennandi og kosningarnar sjálfar. Gamla settið er alls ekki á því að gefast upp.

IMG 1749Dauður rabbarbari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband