1783 - Stjórnarskráin o.fl.

Kannski líta einhverjir á þjóðaratkvæðagreiðsluna í þessum mánuði sem nokkurs konar æfingu fyrir alþingiskosningarnar sem haldnar verða áður en mjög langt um líður. Sjálfstæðismenn munu líta á það sem sinn sigur ef kjörsókn verður lítil. Sömuleiðis munu þeir líta á það sem mikinn sigur ef nei-in við fyrstu spurningunni verða mörg. Tala nú ekki um ef þau verða fleiri en já-in.

Annars er ekki hægt annað en að álíta að Jóhanna og Steingrímur hafi platað stjórnarandstöðuna pínulítið í sambandi við þetta stjórnarskrármál. Bjarna Benediktsson hefur eflaust langað til að skora á menn að kjósa ekki. Slíkt hefði þó jafnvel getað orðið flokknum hættulegra en sú stefna sem ofaná varð.

Dagskipun sjálfstæðismanna (og e.t.v. framsóknarmanna einnig) er að mæta á kjörstað og segja nei við fyrstu spurningunni. Hætt er við að hæstiréttur forðist að hafa afskipti af þessu máli þó einhverjir ætlist áreiðanlega til þess. Sjálfsagt finnst þeim þó að bíða með allar kærur og þessháttar þar til úrslitin eru ljós. Þeir sem vilja kjósa leikfléttulega bíða nú með öndina í hálsinum eftir marktækri skoðanakönnum.

Þór Saari var dæmdur í 300 þúsund króna sekt fyrir að hafa haldið því fram að prófessor einhver væri á launum hjá LÍÚ. Mér finnst að orðin séu nokkuð dýr þarna, einkum ef miðað er við bætur þær sem þolendur ofbeldis fá jafnan frá dómstólum. Kannski er alls ekki réttmætt að bera þetta saman en mér finnst að dómstólar þurfi að velta fyrir sér samanburði af þessu tagi. Það er alls ekki eðlilegt að fólk sem verður fyrir miklu ofbeldi og sleppur kannski lifandi fyrir algera tilviljun fái aðeins smánarbætur frá hendi dómstóla, en ímynduð æra  prófessors í útlöndum sé metin miklu hærra. Þarna er gott dæmi um muninn á Jóni og séra Jóni.

Gunnar Thoroddsen skrifaði eitt sinn bók (gott ef hann fékk ekki doktorstitil útá hana) sem hann kallaði „Fjölmæli“. Hef ekki lesið þá bók en skilst að hún fjalli um meiðyrðamál fyrir íslenskum dómstólum. Í seinni tíð hafa Íslenskir dómstólar hvað eftir annað verið gerðir afturreka með dóma sína í meiðyrðamálum af Evrópudómstólum. Dómar í allskyns meiðyrðamálum og málum sem snerta Internetið og málfrelsi eru sífellt að verða algengari. Íslendingar neyðast til að haga sér svipað og aðrar þjóðir í þessum efnum.

Ég lýsi hér með frati á þá sem þykjast vera öðrum betri með því að kaupa ekki shell-bensín hvað sem á dynur. Þeir sem segjast ekki versla við þá Bónus feðga af því þeir sé ótíndir glæpamenn eru í mínum augum ekkert betri en þeir sem gera það. Mér dettur ekki í hug að eyða þúsundum króna í það eitt að þykjast vera pólitískt rétthugsandi. Þeir sem lýsa því yfir að þeir láti stjórnmál ráða matvöruinnkaupum sínum eru aumingjar.

IMG 1713Skilti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Kannski sýnir dómurinn sem þú vitnar til, hverjum dómstólarnir í raun þjóna.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 11.10.2012 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband