1781 - Bókasafnið í Alexandríu

Okkur er sagt að bókasafnið mikla í Alexandríu í Egyptalandi hafi verið það stærsta í heimi í fornöld. Þar er talið að allar bækur heimsins hafi verið samankomnar. Nú eru rúm 2000 ár síðan það leið undir lok og fyrst núna er hægt að gera sér raunhæfar væntingar um að heimsbókasafn rísi.

Það safn verður að sjálfsögðu safn af rafbókum sem vel er hugsanlegt að verði að því leyti mun betur úr garði gert, en það sem forðum var í Alexandríu, að allir íbúar heimsins ættu að geta skoðað samtímis þær bækur sem þar eru. Það er stórfyrirtækið Google sem stendur fyrir þessu og nú þegar er búið að skanna einar 20 milljónir bóka. Auðvitað þarf samninga við heimssamtök útgefanda og höfunda en unnið er að því að koma þeim á.

Allt frá því að ég kynntist Internetinu fyrst um 1990 hef ég séð fyrir mér þann möguleika að gera það að einu allsherjar bókasafni. Sú hefur ekki orðið raunin því þeir sem þar hafa ráðið hafa með réttu talið aðra hluti mikilvægari.

Samt hyllir undir þessa þróun nú um þessar mundir. Vel getur verið að auk bókanna verði á þessu heimsbókasafni einnig hægt að nálgast allar kvikmyndir heimsins og dagblöð öll. Látum okkur dreyma.

Sú hugmynd að þannig sé hægt að safna saman öllum þeim bókum sem gefnar hafa verið út í heiminum frá upphafi vega er alls ekkert frumleg eða nýstárleg. Tæknilega er þetta heldur ekkert stórmál. Auðvitað er þetta mikil fyrirhöfn og ekki nema á fárra færi að gera svonalagað. En hvers vegna í ósköpunum ætti að vera áhugi fyrir þessu?

Það er aðeins núna og verður um fremur stutt skeið sem þetta er hægt. Útgáfa rafbóka mun aukast svo mikið á næstu árum að hlægilegt verður að láta sér detta í hug að nokkrum tilgangi þjóni að koma þeim á einn stað.

Bækur hafa fylgt manninum nokkuð lengi. Þar hefur hann skrásett alla mikilvægustu reynslu sína og þar er að finna allan merkilegasta skáldskap sem saminn hefur verið. Með öðrum orðum öll þekking mannsandans hefur verið skráð á skinn og pappír síðustu árþúsundin en nú má búast við að því verði hætt.

IMG 17074 Karlar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband