1778 - Fimm prósentin

Bloggið hjá mér í gær var mjög stuttaralegt. Lesendur voru samt óvenjumargir segir Moggabloggsteljarinn. Ekki veit ég hvort samband er þarna á milli en satt að segja þá forðast ég málalengingar eins og pestina. Kannski eru vinsældirnar vegna nafnsins sem ég setti í fyrirsögnina.

Til eru þeir sem álíta fótbolta mikilvægari en flest annað. Samanlagðar íþróttir allar slaga kannski uppí það að vera nokkurs virði enda bendir fjölmiðlafyrirferðin til þess. Að sumu leyti er þessi yfirdrifni íþróttaáhugi auðvitað flótti frá raunveruleikanum. Einskonar sýndarveruleiki semsagt. En af hverju eru karlmann svona yfir sig áhugasamir um þetta? Satt best að segja finnst mér munurinn á íþróttaáhuganum vera aðalmunurinn á kynjunum. Karlmenn eru líka að jafnaði sterkari líkamlega og þarmeð finnst mér sá munur sem einhverju skiptir vera upptalinn.

Fimm prósent reglan er eitt af því sem verður talsvert fyrirferðarmikið í næstu þingkosningum. Þegar henni var komið á var ágæt samstaða um hana. Sú samstaða var kannski einkum milli þingmanna fjórflokksins. Nú gæti vel verið ástæða fyrir þá til að óttast þessa reglu. Ef mörg framboð verða rétt undir fimm prósent markinu (á landsvísu) en fá ekki kjördæmakjörinn þingmann gæti það vel haft áhrif á stjórnarmyndun eftir kosningar.

Hvað gerist ef framboð fær yfir fimm prósent á landsvísu en engan kjördæmakjörinn þingmann. Held að fimm prósentin hjálpi þá ekki mikið. Upphaflega grunar mig að þetta ákvæði hafi verið sett útaf uppbótarþingmönnunum og eigi bara við um þá. Held að enginn geti orðið kjördæmakjörinn nema hafa vel yfir fimm prósent atkvæða í því kjördæmi. Annars eru þingkosningar orðnar svo flóknar (og sérstaklega úthlutun uppbótarsætanna) að erfitt er að skilja þær. Þyrftu að einfaldast.

Árni Páll Árnason vill verða formaður. Kannski leyfa félagar hans honum það. Ég mundi samt sennilega ekki kjósa hann. Finnst skeggið ekki fara honum nógu vel. Nei annars, í alvöru finnst mér hann of hægri sinnaður. Margir samfylkingarmenn eru það. Veit svosem ekkert hverjir koma til með að keppa við hann um formannstitilinn.

Oft er talað um auðlindir landsins. Orkuna í fallvötnunum, víðerni hálendisins og fiskinn í sjónum. En höfum við nokkuð við auðlindirnar að gera? Ekki eiga Danir auðlindir á borð við okkur í sínu flata landi. Þurfa þeir ekki að treysta á hugvitið og menntunina? Vanrækjum við ekki allt slíkt meðan við getum skítnýtt svokallaðar auðlindir? Já, ég blæs bara á þetta sífellda auðlindatal. Finnst ekki nema eðlilegt að Slartibartfast hafi fengið verðlaun fyrir firðina í Noregi.

IMG 1676Í Fossvogi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband