1772 - Enn um stjórnmál

Ég á svosem ekki von á því að skrif mín um Svein Arason ríkisendurskoðanda hafi einhver áhrif. Flokkapólitíkin er að yfirtaka hans mál eins og önnur. Lítil hætta er á að nefndur Sveinn verði látinn taka pokann sinn. Svo er að sjá sem Steingrímur Jóhann yfirráðherra og Morgunblaðið hafi tekið hann undir sinn verndarvæng. Forstjóri fjársýslu ríkisins hefur aftur á móti e.t.v. spilað rassinn úr buxunum með viðtali sínu í Kastljósinu í gærkvöldi. (s.l. miðvikudag.)

Kannski er ég með bloggskrifum mínum í huganum alltaf að keppa við Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóra. Auðvitað kemst ég ekki með tærnar þar sem hann hefur hælana hvað þekkingu og reynslu í bloggskrifum varðar. Að sumu leyti eru skrif þau sem hann stundaði á árum áður nefnilega sambærileg við bloggskrif. Vitaskuld var hann með puttana á púlsinum og þekkti vel alla þá sem við sögu stjórnmálanna komu og þar að auki gáfaður og vel ritfær. Ég var bara fjarlægur áhorfandi að öllu sem gerðist og líklega ekki einu sinni vel gefinn. Stundaði t.d. aldrei langskólanám.

Ég get þó reynt að passa mig á að vera ekki eins gífuryrtur og mér finnst hann oft vera. Um sumt get ég líka verið honum alveg sammála. Til dæmis finnst mér að síðasti séns þeirra stjórnmálamanna sem stóðu að Hruninu til að hverfa þegjandi og hljóðalaust úr stjórnmálunum sé núna í komandi kosningum. Þar á ég auðvitað einkum við þá sem voru þingmenn og ráðherrar hrunflokkanna fyrir og fyrst eftir Hrunið mikla.

Margt bendir samt til þess að t.d. bæði Björgvin Sigurðsson og Árni Páll Árnason ætli sér að komast aftur í framboð. Slíkt þarf að koma í veg fyrir. Augljóst er að Samfylkingin tapar stórlega á slíku athæfi. Það á samt alls ekki að vera aðalröksemdin. Sama á auðvitað við um Guðlaug Þór Þórðarson og Illuga Gunnarsson. Þrátt fyrir að vera augljóslega á margan hátt hæfileikamenn eru þeir allir með hrunstimpilinn á sér og hafa alls ekki sýnt af sér aukinn skilning á kjörum alþýðu landsins. Draga ávallt taum þjófanna og þeirra sem stóðu að því að koma okkur á kaldan klaka.

IMG 1634Hamraborgin rís há og fögur!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband