1762 - Kindle

Margir sem skrifa um ESB-mál skrifa um þau eins og ekkert annað skipti máli. Vinstri grænum er álasað fyrir að leggja meiri áherslu á að mynda ríkisstjórn með Samfylkingunni en að standa fast gegn ESB-umsókn. Málin eru bara ekki svona einföld. Auðvitað skiptir aðild að ESB máli. Mér finnst hún reyndar skipta meira máli en flest annað.

Úr því sem komið er sýnist mér samt best fyrir Vinstri græna að halda áfram í ríkisstjórninni. Allmargir framsóknarmenn og sjálfstæðismenn eru fylgjandi aðild. Hingað til hafa alþingiskosningar ekki snúist um ESB. Hætt er samt við að þær næstu geri það. Fleira skiptir þó máli í þeim. T.d. stjórnarskrármálið. Ef ekki verður hægt að krefjast bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu fljótlega eftir næstu kosningar er ekki nema eðlilegt að fólk vantreysti stjórnmálamönnum. Forsetinn gæti týnst í þeim átökum sem hugsanlega eru framundan.

Möguleikarnir sem fésbókin skapar eru margvíslegir. T.d. er hægt að skoða gamlar myndir frá hinum og þessum ef áhugi er fyrir hendi. Unnur Kristjánsdóttir frá Hrísdal hafði greinilega verið að skoða gamlar myndir frá Vegamótum á blogginu mínu og deildi einni þeirra á fésbókina og þar sá ég hana og deildi til minna fésbókarvina. Þannig held ég a.m.k. að þetta virki. Reyndar eru myndirnar frá fésbókarvinum (a.m.k. ef þeir eru nægilega margir) þar orðnar svo margar að það er að æra óstöðugan að ætla sér að skoða þær allar. Mikið er allt sem snertir ljósmyndir orðið frábrugðið því sem áður var.

Rafbækur frá Forlaginu eru ekki fáanlegar fyrir Kindle. Svo segir í auglýsingu frá Forlaginu. Kannski ímynda innanbúðarmenn þar sér sjálfir að þeir séu að kynna rafbækur og auka sölu á þeim, en mér finnst þeir flækjast fyrir á þessu sviði eftir megni og hafa gert það lengi. Ég stóð fyrir Netútgáfunni á sínum tíma og veit alveg hvað ég er að tala um. Þó þeim hafi tekist að koma sjálfum sér að í fréttum sjónvarpsins og auglýsi rafbækur grimmt um þessar mundir ber það bara vott um að andstaða þeirra er að linast.

Á Hornströndum er mikið um ref. Kindur eru þar aftur á móti engar. Vafalaust hefur refurinn áhrif á fuglalíf á þeim slóðum. Náttúran leitar þó jafnvægis að lokum. Maðurinn hefur einhver áhrif á fjölgun refsins á þessum slóðum eins og annars staðar. Þegar ég fór um Hornstrandir fyrir meira en áratug fannst mér athyglisverðast að sjá að bjargfuglarnir gerðu sér ekki hreiður alveg uppað efri brún bjargsins og tófuyrðlingar hlupu, að því er virtist, fram af bjargbrúninni og voru með öllu lausir við lofthræðslu.

IMG 1588Ber.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband