1758 - Ta meiga rollana best vita

Lykillinn að andlegu heilbrigði er að geta verið einn með sjálfum sér. Gera sér að einhverju leyti grein fyrir heimsku sinni, takmörkunum og fordómum, en sætta sig við það allt saman og líða vel í eigin hugarheimi. Samskipti við aðra eru auðvitað mikilvæg en æði oft afar yfirborðskennd og grunn. Enginn hugsar á sama hátt og maður sjálfur. Hávaði, hvort sem um er að ræða umhverfishljóð, háværa tónlist eða eitthvað annað, er því aðeins þolandi fyrir fullkomna einbeitingu, að hann drekki öðrum hljóðum sem hugsanlega gætu truflað.

Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins spáir því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verði næsti forsætisráðherra landsins. Það finnst mér dálítið glannalegur spádómur en hann getur hugsanlega ræst. Sjálfstæðismenn langar svo mikið að ná völdum aftur að forysta flokksins gæti vel gengið svo langt að bjóða Sigmundi það embætti, kannski með einhverjum skilyrðum. Hætt er þó við að pabbi hans hafi eyðilagt þann möguleika fyrir honum með því að hamra áfram á Kögunarmálinu. Veit lítið um stjórnarkosningar og þess háttar í fjórflokknum en ef Framsóknarflokkurinn á ekki að halda áfram að minnka er nauðsynlegt fyrir fólk þar að losna við Sigmund Davíð.

Í bloggi einu sem ég las áðan var sagt frá smalamennsku í Strákagöngum við Siglufjörð. Það minnti mig á baráttu mína við Strympurollurnar þegar ég var á Vegamótum. Frá því væri hægt að segja margar sögur en ég sleppi því núna. Besta sagan um þær finnst mér vera frá Þorgrími mjólkurbílstjóra á Eiðhúsum. Hann var oft á ferðinni við Vegamót snemma morguns og sagði mér frá því að þær væru slæmar með að liggja á miðjum veginum og róta sér ekki þó keyrt væri alveg að þeim og flautað sem mest. Stundum þyrfti hann að fara út úr bílnum og gera sig líklegan til að sparka í þær til að þær kæmu sér í burtu.

Ég gæti fyllt bloggið mitt með rollusögum en það athyglisverðasta sem ég hef séð til kinda átti sér stað uppá Reykjum við Hveragerði. Þar var líklega um einskonar námskeið að ræða og sú sem greinilega var kennarinn var að sýna hinum hvernig ætti að stökkva yfir rörahlið. Jú, jú hliðið var ekki ýkja stórt og með því að taka tilhlaup tókst kindinni að stökkva yfir það. Lítil lömb áttu þó í vandræðum með að leika það eftir.  

Danskur kaupmaður sem Lambi var kallaður (minnir að fullt nafn hafi verið Lambertsen) varð fyrir aðkasti sem fólst í einhverjum lambabrandara frá manni sem stundum var kallaður Jón rolla. Þá sagði hann og var það oft haft að orðtaki: „Ta meiga rollana best vita.“

IMG 1507Kringlumýrarbraut á sunnudagsmorgni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband