1753 - Ný stjórnarskrá

Öpp og allskyns vefir ríða nú húsum sem aldrei fyrr. Fésbókin er bara að verða vinaleg og gamaldags í samanburði við sumt. Illskiljanleg samt oftast nær. Veit ekki einu sinni hvað þetta heitir allt saman. Pinterest, Tumblr, twitter, instagram o.fl. hef ég heyrt minnst á, en veit svosem ekkert um.

Tölvur eru líka á allan hátt að verða fyrirferðarmeiri í daglega lífinu. Jafnaldrar mínir komast samt margir vel af án þess að hafa af þeim nokkrar áhyggjur. Aftur á móti er svo að sjá að þeir sem ungir eru geti ekki án þeirra verið. Þannig er bara gangur lífsins. Svipað var með bílana á árum áður. Margir þeirra sem tilheyrðu gengnum kynslóðum forðuðust slík tæki. Fóru í mesta lagi inní slíkt ef ekki varð hjá því kominst.

Sumir þeirra sem ala aldur sinn hér á fésbókinni virðast vera talsvert tarotsinnaðir. Það er miður því þá telja þeir að líkindum að spilin stjórni mannlífinu. Nógu vitlaus er nú fésbókin samt, þó ekki bætist þetta við. Hef ekki séð mikið fjallað um drauga þar eða hér á blogginu né aðrar handanheimsfígúrur nema þá helst Guð Almáttugan. En förum ekki nánar út í það, nóg er nú samt.

Verulegar líkur eru á að þjóðaratkvæðagreiðslan sem fara á fram í október næstkomandi snúist einkum um það hvort taka eigi þátt í henni eða ekki. Þeir sem berjast fyrir því að fólk taki ekki þátt í henni (tala nú ekki um stjórnmálaflokka) taka talsverða áhættu.

Kosningin verður eflaust kærð til hæstaréttar en það er ekki öruggt að hann dæmi hana ógilda. Og þó svo verði getur hún haft mikil áhrif. Með henni má sennilega segja að mikill átakavetur hefjist í íslenskum stjórnmálum. Hvort þau átök verða aðallega á Alþingi eða umhverfis það er alls ekki gott að segja á þessu stigi. Lok þeirra átaka verða örugglega ekki fyrr en í næstu þingkosningum, en þá ætti þeim að ljúka að mestu leyti.

Skoðanakannanir, sem margir taka heilmikið mark á, fara einkum fram í gegnum síma núorðið sýnist mér. Vel getur verið að sú mynd sem síminn gefur af þeim sem þátt taka í þeim sé ekki alveg rétt. Einkum ef tekið er tillit til þess hve margir hafa afþakkað allskyns truflanir í síma sínum. Svipað er að segja um allskonar undirskriftasafnanir sem fram fara á netinu. Ekki er öruggt hve mikið er að marka þær. Hugsanlega er því líkt farið með þjóðaratkvæðagreiðslur einkum ef sumir skora á fólk að kjósa ekki en aðrir á það að kjósa. Einhvers staðar verður samt að nema staðar. Gallar hljóta alltaf að vera á öllu.

IMG 1386Skrautlegt hey.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband