Fimmtánda blogg

Það virðist sem einir 4 lesendur hafi komið hingað í dag að lesa bullið úr mér. Þetta virðast ekki vera forvitnislesendur eins og ég var að giska á um daginn að kæmu inn vegna þess að bloggið mitt væri á lista yfir nýleg blogg.

Ekki veit ég hvernig á þessu stendur en auðvitað getur verið að fjölskyldan sé búin að uppgötva þetta og líti hingað inn til  að fylgjast með. Hvað um það, áfram skal haldið og að mestu án tillits til þess hvort einhverjir lesa bloggið eða ekki.

Í gær fékk ég meira að segja komment eins og sjá má og svaraði því snimmendis.

Vatnsflóð varð hér í MS í nótt sem leið, en þó ekki  mjög alvarlegt. Eitthvað mun þó hafa skemmst af dóti á vélaverkstæðislagernum vegna leka sem varð á loftræstilofti þar fyrir ofan. Ég varð fyrst var við þetta þegar brunaviðvörunarkerfið fór í gang með miklum látum og tilkynnti um eld, sem að sjálfsögðu var rangt.

Í dag sá ég hér á Moggablogginu að einhver kona var að byrja skrif sín hérna. Enginn var búinn að kommenta á bloggið hennar og ég var að hugsa um að gera það, því ég veit hvað það er hjartastyrkjandi, en svo fór ég eitthvað annað að gera og gleymdi nafninu. Já og ég sá bloggið hennar einmitt meðal nýlegra blogga.

Áslaug er að skúra í Aðföngum þessa dagana og Bjarni er að hjálpa henni. Veit ekki hvernig þetta verður í næstu viku. Kannski eins.

Datt í hug í sambandi við hjartastyrkjandi kommentin að í gamla daga stóð á miðunum á Maltflöskunum - Maltextrakt, nærandi, styrkjandi, gefur hraustlegt og gott útlit. Þegar ég las þetta fyrir fólk hafði ég fyrir sið að bæta við - og kemur í veg fyrir skalla. Þessu trúðu fáir, en sannfærðust þegar þeim var sýnd flaskan - trúðu jafnvel þessu með skallann. Einhvern tíma orti ég smáljóð sem ég nefndi "Orðsending frá ölgerðinni" og var svona: Ef úti er kalt - og veður svalt - þá umfram allt - þú drekka skalt - malt. Þetta er nú eiginlega ort undir svokölluðum orðhengilshætti, og ekki meira um það.

Varð fyrir því óhappi að tapa nokkrum skákum á playchess.de um daginn á tíma. Gleymdi bara alveg að leika. Þetta þýðir að ég get ekki tekið þátt í mótum þar fyrr en í marslok eða svo. Annars þykir mér orðið skemmtilegra að tefla á Gameknot.com núorðið. Þar er Bjarni búinn að starta 7 manna móti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Það er þræl gaman að fá smá athugasemdir frá gestum... eða hvað?

Gunnar Helgi Eysteinsson, 16.2.2007 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband