1731 - Lygimál

Í blogginu mínu í gær (eða s.l. nótt) var m.a. talað um Vestmannaeyjar. Þar hefði ég auðvitað átt að setja eitthvert greinilegt lygamerki því auðvitað var allt sem þar kom fram argasti uppspuni og tilbúningur. Flestir hafa eflaust séð það strax en kannski ekki allir. Þarna féll ég semsagt í þann pytt sem margir gera að halda að það sem maður skrifar sé svo lygilegt að enginn trúi því. Sannleikurinn er samt oft lygilegur mjög.

Legg svolítinn metnað í að fá eigin hugmyndir að skrifum í þetta blogg. Vissulega fást oft hugmyndir um ýmislegt með því að lesa fésbók og blogg annarra. Stundum er maður hjartanlega sammála síðasta ræðumanni, en hvern varðar um það? Á þá að ýta á einhvern læk-eða deilitakka? Nenni því yfirleitt ekki. Veit heldur ekki hvaða afleiðingar það getur haft. Frekar skrifa ég athugasemd. Það er bara svo erfitt. Fésbókar- og twittermerki og allskonar nýmóðins drasl út um allt að biðja mann að ýta á sig. Eins gott að vara sig.

Kannski er ég sérvitur. Það er gaman að því. Flestir sem sérvitrir eru láta lítið fyrir sér fara. Ekki ég þó. Bloggið er samt orðið úrelt og í rauninni ekki fyrirferðarmikið. Helst vil ég ekki hljóma eins og einhver besservisser. Gúgli gamli getur átt þann titil fyrir mér. 

Man að HKL (Halldór Kiljan Laxness) lét persónu í einni skáldsögu sinni segja að pólitík væri leiðindatík. Þá væri rjómatíkin nú betri. Þar átti hann við rómantíkina. Hún er bara ekkert betri, sannleikstíkin ekki heldur. Hvað þá ímyndunartíkin eða bloggtíkin.

Þegar Bauhaus var opnað í vor hitti ég Óla Sig. þar. Held svei mér að ég hafi ekki hitt hann síðan við útskrifuðumst af Bifröst. Semsagt fyrir meira en 50 árum. Skelfing er tíminn fljótur að líða og þó lengi. Ósköp líður mér alltaf illa í stórum verslunarhúsum. Verð alveg ruglaður og veit ekki hvort ég er að koma eða fara. Langskást er að versla ekki neitt. Flýta sér bara í gegn, en það er ekki alltaf hægt. Með tímanum lagast þetta og maður fer að þekkja húsin. Í IKEA er ég kominn uppá lag með að stytta mér leið. Ekkert svoleiðis er ennþá um að ræða í Bauhaus og kannski verður það aldrei.

IMG 1058Í nágrenni Bessastaða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband