1730 - Róleg nótt í Eyjum

Í samtali við lögregluna í Vestmannaeyjum kom fram að nóttin í nótt var afskaplega róleg. Svo róleg að elst muna ekki annað eins og eru þeir þó ekki gamlir, Að vísu komu upp fimm nauðgunarmál og eiturlyf af fjölbreyttu tagi fundust á allmörgum mönnum. Svo voru það líkamárásarmálin ætli þau séu ekki svona sex eða sjö. En ég ítreka að það það hefur enginn látist svo vitað sé þó menn séu dauðir áfengisdauða hér útum allt. Nóttin fór mjög friðsamlega fram. Svona er þetta bara og við erum með nægilegt löreglulið til að fást við svona fá mál. Þetta er þó allt ókannað ennþá og talan getur breyst.

Nú eru blogg lítið lesin, enda stendur lengsta og mesta ferðahelgi sumarsins yfir hjá flestum og ágætt að vera í bænum. Þar að auki fara ólympíleikarnir víða og beint sjónvarp frá þeim getur verið ansi spennandi. Fór uppá Akranes og í Melahverfi sem varla getur talist langferð og á föstudaginn fórum við í Heiðmörk í nágrenni Vífilsstaða, einkum til að svipast um eftir sveppum. Fundum svolítið af þeim og einnig eru bláberin og hrútaberin orðin vel þroskuð. Var sérlega hrifinn af því hve mikið er af hrútaberjum. Bláberin eru samt betri þegar tínt er uppí sig eins og ég gerði.

Jónas Kristjánsson hamrar á hatursáróðri á bloggsíðu sinni. Hann vill gjarnan hneppa sem flesta menn (einkum útrásarvíkinga) í langt fangelsi. Vissulega eru margir sekir um ýmis afbrot sem hann nefnir en áróður af því tagi sem hann rekur fyrir vinstri sinnuðum skoðunum og Páll Vilhjálmsson rekur fyrir Sjálfstæðisflokkinn er ekki líklegur til árangurs. Fólk er ekki fífl. Morgunblaðið stendur sig ágætlega fréttalega séð, en pólitísku skrifin þar eru ekki beysin. DV leitar að öllu sem miður fer og stendur sig ágætlega í því, en er afar neikvætt í öllum sínum skrifum. Fréttablaðið setur sig á háan hest og þykist yfir aðra hafið en er samt óttalega lélegt. Hef reyndar bara reynslu af þessum sneplum á netinu. Finnst ekki taka því að henda peningum út um gluggann. Á Eyjuna og Pressuna er óþarfi að minnast. Samt slæðist þar inn ein og ein sæmileg grein. Hlýtur að vera óvart.

Þægilegur myndmiðill er fésbókin eflaust. En mikið afskaplega eru sumar myndirnar þar lélegar. Sumir virðast ekki einu sinni velja það skásta úr til að setja þangað, heldur hrúga bara öllu þar inn. Sem betur fer þarf maður ekki að skoða þær allar og getur hætt þegar maður vill.

IMG 1046Steinar og gras.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband