1727 - Aðalhelgi sumarsins nálgast

Já, ég horfði svosem á fyrri hlutann af „Stellu í orlofi“ um daginn. Mikið hefur myndin elst illa. Man að mér þótti hún að mörgu leyti ágæt á sínum tíma. Eiginlega bara tímaeyðsla að vera að horfa núna.

Þegar maður er andvaka er engin bót að því að hægt sé að fara á fésbókina og skrifa einhvern fjárann þar. Jú, annars. Gallinn er bara sá að í fyrsta lagi þarf að ákveða hvað það eigi að vera, svo þarf að velta því fyrir sér hverjir komi til með að sjá það. Allt getur það komið í hausinn á manni seinna. Á endanum er kannski hampaminnst að sleppa því alveg. Hvers vegna ætti maður þá að vera að skrifa á statusinn sinn?

Nær væri að blogga sjaldnar og vanda sig meira. Athuga það. Þó Davíð sé vondur er ókeypis, vandalaust og þægilegt að blogga á Moggablogginu. Já, og ég er ekkert að styrkja hann með því, þó hann sé frændi minn. (Eða ég frændi hans.) Gæti meira að segja vanið mig á að linka á fréttir á mbl.is ef mig langaði að gefa teljaranum svolítið trukk undir taglið. Mbl.is-fréttir eru um margt góðar og þó íslenskan og landafræðikunnáttan hjá þeim sem þær skrifa sé ansi gloppótt á fréttamatið um margt sæmilega við mig. Þeir gera jafnvel grín að sjálfum sér og Árna Johnsen. (Sbr. vídeóið um frestun þjóðhátíðarinnar í Eyjum) Ætli það verði ekki bara sett brekkusniglamet.

Skelfing held ég að bloggið mitt yrði leiðinlegt ef ég skrifaði bara um stjórnmál. Margir bloggarar gera það samt. Einkum hér á Moggablogginu. Aðalgallinn er sá að þeir sem það gera taka aldrei sjálfstæðar ákvarðanir. Þeir taka jafnan þá afstöðu sem kemur flokknum þeirra best. Að þeir taki stundum afstöðu gegn flokkshagsmunum er af og frá.

Ekki get ég gert að því þó allmargir virðist lesa bloggið mitt (samkvæmt Davíðska teljaranum.) Reyni samt að passa mig á að linka aldrei í fréttir og kommenta sjaldan á það sem skrifað er á mbl.is. Nóg er um að skrifa þó ekki sé verið að bergmála hugsanir annarra. Háfleygur er ég stundum en aldrei óskiljanlegur. (Held ég.)

IMG 0989Í Fossvogi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband