1694 - Hunger games

Untitled Scanned 05Gamla myndin.
Knattspyrna á barnaskólatúninu (fyrrverandi). Barnaskólinn nýi (gamli) og Fagrihvammur í baksýn.

Ég er að mestu hættur að vanda mig við bloggið. Það gengur ekki. Henti áðan þangað einhverju sem ég hafði skrifað í fyrrinótt eða gærmorgun. Nei, ég verð að reyna að gera betur. Verð líka að fara að raða myndunum sem ég hef verið að setja á bloggið undanfarna mánuði.

Allar þrjár hungurleikabækurnar eru í kyndlinum mínum. Svo virðist sem bækur þessar séu afar vinsælar um þessar mundir. Fyrstu bókina las ég spjaldanna á milli og þótti hún mjög spennandi. Bók nr. tvö las ég einnig alla og hún var talsvert spennandi þó hún líktist fyrstu bókinni greinilega mikið. Sama sögusvið, lík atburðarás og á margan hátt má segja að hún hafi verið endurtekning á því sama. Spennuna vantaði alls ekki þó höfundurinn væri greinilega mjög á slóðum amerísku hefðarinnar hvað varðar áhersluna á kynferðismálin og kvikmyndavænleikann.

Í þriðju bókinni er áherslan talsvert breytt. Nú er mikið sótt í venjubundnu amerísku hefðina hvað snertir stjórnmál, kvikmyndahugsun, kynferðismál og leikfléttu alla. Sögusviðið er samt að mestu óbreytt enda gafst það vel í fyrstu bókunum. Af einhverjum ástæðum hef ég ekki komist yfir að lesa bókina nema til hálfs eða svo og á varla von á að ég klári hana nokkurntíma. Mér hugnast hún ekki vel, en vel kann samt að vera að margir njóti þess að sjá kunnuglegt umhverfi springa í loft um með miklum látum og ameríska drauminn verða að veruleika. Ég efast ekkert um að höfundinum takist að koma hinum ómissandi „happy ending“ að og bókin er skrifuð af miklu fjöri og höfundurinn hugsar mjög til þarfa bandarísks almennings og kvikmyndaiðnaðar.

Síðan ég byrjaði að lesa þriðju hungurleikabókina hef ég lesið margar áhugaverða bækur. Mest þykir mér þó gama að blaða í bókakostinum á Amazon og skoða káputeiningarnar þar. Lítist manni sæmilega vel á bókina má alltaf fá nánari kynningu á henni og nokkra fyrstu kaflana eða svo. Ekki veit ég um neinar takmarkanir á þessu og úrþví maður er búinn að fá sé þráðlausan aðgang að netinu er ekki slæmt að geta legið í rúminu og blaðað í Amazon-bókum endalaus og reynt að finna allt mögulegt, því auðvitað er hægt að láta tölvuna raða bókunum eftir ýmsum atriðum og leita að hverju sem er. Mikill fjöldi bóka er þar með öllu ókeypis en það eru einkum gamlar bækur sem gerðar hafa verið að rafbókum. Sú stefna hefur verið rekin lengi að breyta bókum sem dottnar eru úr höfundarvernd í textaskrár og nægir þar að benda á Gutenberg safnið. http://www.gutenberg.org/ Netúgáfan íslenska http://snerpa.is/net/ byggir líka mjög á sömu hugmynd. Textaskránum er síðan auðvelt að breyta í skrár sem henta hvaða lesara sem vera skal.

IMG 0324Rauðilækur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband