1692 - Umræðurnar á RUV o.fl.

Untitled Scanned 03Gamla myndin.
Lúðrasveitin enn. Dettur í hug gamli brandarinn þar sem spurt er um í hvaða sveit kálfarnir séu helmingi fleiri en mannfólkið.

Hlustaði og horfði á forsetaframbjóðendurna áðan. Skelfingar japl var þetta og sjálfshól. Sjálfshólið er kannski eðlilegt. Varla verða aðrir til þess að hrósa þeim. Stjórnendurnir höfðu fremur litla stjórn á hlutunum. Nema þau hafi kannski fyrst og fremst ætlað að tala um sagnfræði og lögfræði. Eigum við kannski einkum að taka ákvörðun um hvern við kjósum á grundvelli þess hve klár þau eru í áðurnefndum greinum? Ég segi nei. Legg sjálfur reglurnar um hvernig ég ákveð mig í þessum kosningum. RUV stóð sig aðeins betur en  Stöð 2, en alls ekki nógu vel samt.

Já, en hvernig stóðu þau sig? Í mínum augum einhvern vegin svona:

Ólafur – langorður og ekki sem trúverðugastur.

Herdís – Of upptekin af eigin ágæti og titlum.

Ari Trausti – Ágætlega máli farinn, en gerði fullmikið af því að pota í Ólaf.

Þóra – Hrædd og svolítið óákveðin.

Andrea – Of höll undir Ólaf og flokkspólitísk, en nokkuð vel að sér.

Hannes – Norskur hreimur og kannski stjórnmálamaður eins og hefur vantað hér.

Ætli Ólafur taki þetta ekki. Mun samt ekki kjósa hann aftur.

Læt svo útrætt um þetta í bili. Finnst of mikið fjallað um málið. Embættið er nánast valdalaust nema einstöku sinnum.

Kannski eru kommentin best fyrir það að þá gefst manni tækifæri til að skrifa ennþá meira. Svo er ágæt aðferð sem ég er farinn að beita svolítið, (auk þess að linka á bloggið mitt á fésbókinni) en hún er sú að ég birti kannski sömu klausuna á fésbók og bloggi ef mér finnst hún þurfa/eiga að koma fyrir margra sjónir strax. Biðst afsökunar á því.

Auðvitað skiptir fyrirsögnin máli í bloggi. Um þessar mundir er réttast að hafa fyrirsögnina eitthvað tengda forsetakosningunum því flestir eru að hugsa um þær. Annars er líka gott að hafa eitthvert þekkt nafn í fyrirsögninni því þá eiga margir von á að rifrildi sé í uppsiglingu. Ekkert er nefnilega eins spennandi og hávaðamikið rifrildi sem maður tekur ekki þátt í sjálfur.

Líka er gott að fullyrða eitthvað í fyrirsögninni sem engin leið er að standa við. Auðvitað er svo best að hengja þetta við vinsælustu greinina sem hægt er að finna á mbl.is. Til öryggis má skrifa eitthvað smá um það sem þar er sagt frá. Sé þetta haft í huga er ekki erfitt að komast hátt á vinsældalista Moggabloggsins sé það markmiðið. Sérstaklega ef maður er á stórhausalistanum. Hvort maður nennir svo að vera ofarlega þar til lengdar er annað mál.

Rétti tíminn til að baktala Ólaf Ragnar Grímsson hlýtur að vera núna. Minnist þess að hafa blöskrað a.m.k. einu sinni þjóðremban í honum þegar ég hlustaði á hann flytja ræðu um Pocahontas og teiknimyndir. Auðvitað var Snorri Þorfinnsson mun merkilegri en stelpuræfillinn. Held samt ekki að hann hafi sjálfur ætlað að gera miklu betri kvikmynd um hann en a.m.k. fullyrti hann að það væri enginn vandi. Ekki meiri vandi en að kveða niður eiturlyfjafaraldurinn, en eins og allir vita er það afar auðvelt. Segir Ólafur eins og sönnum framsóknarmanni sæmir.

IMG 0302Ölfusárbrú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég var búin að stimpla Hannes ættingja og velti fyrir mér hvaðan af norðausturhorninu hann væri ... var svo upplýst um að Hannes er fæddur og uppalinn í Skagafirði og flotti norðlenski hreimurinn og syngjandin einungis norskur hreimur ;(

Harpa Hreinsdóttir 9.6.2012 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband