1689 - Umfangsmikil bloggskrif

x28Gamla myndin.
Pabbi og Bjössi.

Ég er orðinn svo iðinn við bloggskrif að til vandræða horfir. Helst vil ég ekki blogga oft á dag, en stundum verður ekki hjá því komist. Mér finnst skárra að gera það en að hafa bloggin of löng. Ein word-síða eða rúmlega það (með fonti nr. 12 og línubili 1,15) er hæfilegt að mínum dómi. Mér finnst ég líka vera að dragast inn í umræðuna sem tengist forsetakosningum þó ég vilji það helst ekki.

Mér þykir samt gaman að reyna að sjá fyrir pólitíska þróun í landinu og er enginn aðdáandi fjórflokksins og finnst pólitík öll hafa breyst mikið eftir Hrunið. Margt finnst mér benda til þess að Ólafur Ragnar Grímsson sigri í forsetakosningunum í lok þessa mánaðar. Mér finnst hann þó ekki hafa hagað sér fosetalega undanfarið og ekki eiga skilið að sitja áfram.

Aðalástæðan fyrir því að ég er skyndilega orðinn svona duglegur að blogga er sennilega sú að ég er ekki nógu gagnrýninn á það sem ég sendi frá mér.

Ég er búinn að venja mig á að birta tvær myndir með hverju bloggi. (Og enginn hefur kvartað) Aðra myndina hef ég jafnan gamla og hina nýlega og undantekningalaust tekna af mér sjálfum. Það er samt sífellt að verða erfiðara og erfiðara að finna myndir til að setja í eldri flokkinn en betra að eiga við hinn. Á næstunni mun ég birta rúmlega tuttugu myndir sem Bjössi bróðir minn hefur tekið við 17. júní hátíðahöld í Hveragerði einhverntíma á áttunda áratug síðustu aldar.

Það er lítill vandi að skrifa svona hugleiðingar um allt mögulegt og kalla það blogg. Líklega er það blogg, en þá er blogg (eða weblog) eins og það heitir upphaflega á ensku, lýsing á forminu miklu fremur en innihaldinu. Af hverju blogga þá ekki miklu fleiri? Nú, það þurfa einhverjir að lesa öll þessi blogg. Ekki get ég kvartað í þeirri deild því með mikilli og langri ástundum hefur mér greinilega tekist að koma mér upp kjarna sem finnur sig í að lesa það sem frá mér kemur.

Einn af þeim sem skrifar í bókina sem ég var að minnast á um daginn heitir Darrell Bain og er greinilega vinsæll í rafbókaheiminum. Ég get fengið í kyndilinn minn einar 60 bækur eftir hann.

Stjórnarandstaðan virðist ætla að þusa, þjarka og þófast enn um sinn og reyna að hafa áhrif með því. Málþófið hvílir þó á tiltölulega fáum einstaklingum og getur lokið hvenær sem er. Boltinn er í rauninni hjá þingforseta og hún getur bundið enda á þetta ef hún vill. Samkomulag er þó vanalegra á þessum tímapunkti og á margan hátt æskilegra.

Því er ekki að neita að rithöfundargrillurnar hjá mér hafa nokkrum sinnum leitt til þess að ég hef reynt að koma saman bók. Einkum hefur mér dottið í hug að skrifa einskonar endurminningabók og notast þá við þau endurminningabrot sem er að finna í bloggskrifum mínum. Fljótlega hef ég þó séð að til þess þarf gríðarlega yfirsýn og vinnu og þegar á hólminn er komið er ég alls ekki tilbúinn til þess að leggja hana fram gegn alveg óvissu endurgjaldi. Nei, þá er nú meira gaman að fimbulfamba bara á blogginu og þurfa ekki að passa sig á neinu öðru en að skrifa hæfilega mikið og oft. Þannig er það eiginlega orðið núna. Skrifin sjálf valda mér engum vandræðum.

IMG 0264Bráðum tilbúinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband