1675 - Speglasjónir

xGamla myndin.
Reykjavíkurtjörn. Ekki merkileg mynd en áreiðanlega gömul.

Nú hef ég ekkert farið á tölvu (og þar af leiðandi ekki séð Fésbókina) í næstum tvo daga og lítið sem ekkert hlustað eða horft á fréttir í jafnlangan tíma. Það er ekki laust við að ég fái þá tilfinningu þegar ég skruna yfir fésbókarstaglið að ég hafi misst af einhverju og þar sé margt merkilegt að finna. Er þetta eðlilegt? Ég held ekki. Eiginlega má þetta tölvurugl alveg missa sig. Ég ætla ekki að nota tíma minn til að sökkva mér niður í eitthvað sem í rauninni er úrelt orðið. Samt er það svo að á netinu gerast hlutirnir. Þeir tefja líka fyrir fólki að gera eitthvað að gagni. Það er sífellt að leita að einhverju svakalega merkilegu og má aldrei vera að því að horfa á litlu hlutina sem aðrir hafa engan áhuga á af því að þeir eru sífellt að leita að þessu svakalega merkilega.

Ef ég kemst að þeirri niðurstöðu sjálfur og einn að ég hafi rithöfundarhæfileika þá hef ég þá. Engu máli skiptir hvað öðrum finnst. Með þá hæfileika (séu þeir til staðar) gildir það sama og með aðra. Til þess að þeir komi að einhverju gagni þarf stöðuga og mikla ástundum. Af sjálfu leiðir að hún getur vel orðið til þess að annað sitji á hakanum. Þessvegna eru flestir svona skrýtnir. Þeir hafa nefnilega hæfileika til einhvers en oft verður eitthvað utanaðkomandi til þess að trufla ástundunina. Þá er áherslan semsagt lögð á það sem heldur viðkomandi frá því að sinna sínu hugðarefni og þannig fer mikið magn ónýttra hæfileika til spillis. En af hverju er þetta svona. Veit það ekki. Best að hugsa svolítið um það.

Bloggið er sú leið sem ég hef fundið fyrir það sem mér finnst vera mínir aðalhæfileikar. Þörf mín til að gera eitthvað enn stærra og merkilegra en blogga hefur í áranna rás verið trufluð af mörgu. Tíunda það ekki hér. Hvað þarf sá sem sískrifandi er að hafa til brunns að bera. Nú, hann þarf einkum að fá aðra til að trúa því að hann sé afburðasnjall. Það verður hann ekki nema með mikilli ástundun eins og fyrr er skrifað. Sumir eru svo heppnir að sérhæfileikar þeirra uppgötvast fljótt (einkum af þeim sjálfum) og þeir búa þá jafnfram við þannig aðstæður að sérgáfa þeirra nýtur mikillar athygli og stuðnings.

Er þá ef til vill hægt að rækta trú barna og unglinga á það að þau geti gert eitthvað merkilegt og eiginlega hvað sem er? Það er margt sem bendir til að svo sé og frásögnin af þeim Polgar systrum ungversku sýnir að hugsanlega er þetta alveg hægt.

IMG 0090Slípaðir steinar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband