1673 - 42

029Gamla myndin.
Margrét Sigvaldadóttir.

Munurinn á núverandi ríkisstjórn og þeim sem á undan hafa verið er sá að sú núverandi kemur ekki sínum uppáhaldsmálum í gegnum alþingi. (Kattasmölun ehf.) Fyrri ríkisstjórnir gátu næstum treyst því að koma hvaða vitleysu sem er þar í gegn. (Íraksstríðið t.d.) Núverandi ríkisstjórn á við margskonar vanda að stríða. Stjórnarandstaðan einbeitir sér einkum að því að koma henni frá. Vinsældirnar fara hraðminnkandi og það er ekki nóg með að fyrrum stuðningsmenn séu orðnir á móti henni heldur er Ólafur Ragnar stöðugt að pota í hana. Á endanum er maður næstum farinn að vorkenna henni.

Seinna meir mun áranna eftir síðustu aldamót verða minnst vegna stjórnmálalegrar ólgu. Ekki ólíkra fyrstu árum tuttugustu aldarinnar. Segja má að uppkastið þá og samningarnir við Dani hafi valdið svipaðri ólgu og hrunið núna. Kreppan mikla eftir 1930 og heimsstyrjöldin og hernámið ollu einnig verulegum breytingum hér á landi. Að líkja hruninu sem varð árið 2008 við borgarastríðið sem segja má hafi geysað hér á þrettándu öld eða móðuharðindin á þeirri átjándu er fjarri öllu lagi og sýnir bara fáfræði þeirra sem halda öðru eins fram.

Mín tilfinning er sú að með hruninu hafi lífskjör öll á landinu og efnahagslíf færst afturábak um sex til tíu ár og munar svo sannarlega um minna. Stjórnmálalegar afleiðingar hrunsins eru samt alls ekki allar komnar fram. Vel má búast við að stjórnarfarið allt ásamt flokkakerfinu breytist verulega á næstu árum.

Ég held ég hafi sagt það áður að í raun er einungis um tvenns konar þróun að ræða. Annaðhvort í átt til Evrópu eða Norður-Ameríku. Einangrunarstefna er ekki kostur og getur aðeins ríkt hér í stuttan tíma eftir að við Íslendingar höfum kynnst frelsinu. Sameining við eða náin samvinna við fjarlæg ríki eða ríkjasambönd getur aldrei þrifist til lengdar. Til þess erum við Íslendingar of fáir og hagsmunirnir of ólíkir.

Hætt er við að reynt verði að lesa alltof mikið í úrslit væntanlegra forsetakosninga. Fjölmiðlastríð mikið er að skella á þar og reynt verður að gera úrslitin sem jöfnust og mest spennandi. Á meðan fjölmiðlar og fleiri verða uppteknir við þær kosningar eru auðvitað mörg önnur mál sem brýnt er að ráða framúr. 

En sleppum því. Vorið er á leiðinni og nú er sennilega ekkert sem getur stöðvað það. Hvort það verður hlýtt, kalt, þurrt eða vætusamt á samt eftir að koma í ljós. Ekkert getur komið í veg fyrir að sumarið fylgi í kjölfarið og best er að hafa áhyggjur af einhverju öðru en pólitík. Eða bara engar áhyggjur.

Allir eru í afneitun og fýlu segir Jónas Kristjánsson og hefur einkennilega rétt fyrir sér þar. Stjórnmálaástandið situr ótrúlega mikið í mönnum og það er ekkert gaman að vera Íslendingur lengur. Eins og landið er nú skemmtilega gert. Man að ég var alltaf dálítið ósáttur við að Slartibartfast skyldi fá verðlaun fyrir firðina í Noregi en að ekki væri minnst á Íslandið góða. Kannski skapaði hann það bara ekki.

IMG 0079Þröngt mega sáttir sitja. (Og ósáttir troða sér.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband