1663 - Listin að skrifa á fésbókina

015Gamla myndin.
Fríður Guðmundsdóttir og Áslaug Gunnarsdóttir hægra megin og gætu verið Hinrika Halldórsdóttir og Hildur Kristjánsdóttir t.v.

Fyrirsögnin skiptir mestu um hve margir skoða bloggið manns. Það er ég alveg búinn að sjá. Auðvitað er þó margt fleira sem skiptir máli. Í síðasta bloggi talaði ég eitthvað um forsetakjörið minnir mig í fyrirsögninni. Það er einmitt það sem fólk hefur mestan áhuga á þessa dagana. Enda var það eins og við mannin mælt, aðsóknartölur hækkuðu verulega. Sennilega væri réttast hjá mér að minnast eitthvað á þær kosningar nú. Eða ekki.

Ef maður hefur nógu margt um að skrifa til að blogga, þó ekki sé nema öðru hvoru, þá hefur maður nóg um að skrifa á fésbókarræfilinn. Það er samt til lítils að vera sískrifandi þar ef enginn nennir að lesa það hjá manni. Undireins og einhver lækar eða sérar hjá manni fær maður samt að vita af því. Þannig verða undarlegustu tröllasamtöl til, þ.e.a.s. ef maður svarar. Einhverra hluta vegna finnst greinilega mörgum viðurhlutameira að skrifa komment á blogg en á fésbók. Ef fá viðbrögð koma við því sem maður skrifar á sinn eigin vegg getur maður sem hægast gert athugasemd hjá einhverjum öðrum. Það er að segja ef maður hefur einhvern áhuga á rauðu tölunum.

Þegar ég byrjaði á fésbók safnaði ég fésbókarvinum og hætti ekki fyrr en ég var kominn í fjögur hundruð eða svo. Þessvegna þjóta þessar séranir og þess háttar framhjá mér núna og ef ég vil skoða eitthvað nánar er eins víst að ég þurfi að samþykkja einhvern fjárann til að fá það. Ég ætla samt ekkert að hætta á fésbók, því hún er góð til síns brúks og ég tefli þar bréfskák alla daga. Það er nú reyndar bara linkur á „chess.com“ sem þar er held ég en það sameinar samt tvennt að kíkja á bókina. Tékka semsagt á skákinni og rauðu tölunum.

 Hér er gróðavænleg viðskiptahugmynd. Hvernig væri að búa til og reyna að selja (t.d. í Elko) Hleðslumiðstöð heimilanna. Vísir að slíku er hér á kommóðunni í tölvuherberginu og þar eru símarnir hlaðnir (a.m.k. minn), myndavélabatteryin, spjaldtölvan og þráðlausu heyrnartækin, ásamt öðru tilfallandi. Eilíft snúruvesen og áhyggjur. Segi bara svona. Tengikassa fyrir tövudót væri líka áreiðanlega hægt að selja einhverjum.

Ég er semsagt að rembast við að skrifa eitthvað sem aðrir vilja lesa. Af hverju er ég að því? Veit það ekki almennilega. Kannski mest útaf tölunum og listunum þó ég vilji helst ekki viðurkenna það. Jú, það er gaman að fá svona hæfilega mörg komment. Þau geta samt hæglega orðið of mörg. Því hef ég brennt mig á. Sumir eru nefnilega einkum á netinu til að kommenta út og suður. Þeir eru samt ekki mjög margir og lítill vandi að losna við þá. Margir fá greinilega útrás með því að skrifa og kommenta sem mest á fésbókinni. Það er ágætt.

IMG 8277Hús.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband