1627 - Pétur fígúra

Scan210Gamla myndin.
Að Velli í Hvolhreppi.

Eflaust má þræta um það fram og aftur hvort rétt sé að lögsækja Geir Haarde, einan eða sameinaðan. Það sem gerir málið pólitískt öðru fremur er að það skuli fyrst núna renna upp fyrir mönnum að hægt hefði verið að gera þetta öðruvísi. Mér finnst það ansi seint í rassinn gripið.

Að hugsa fast og lengi er einskonar Ögmundarhugsun.

Áróðurinn hefur áhrif. Ég er í engum vafa um að það sem sagt og skrifað hefur verið um Haarde-málið hefur haft áhrif. Einhverjir þingmenn hafa verið búnir að lofa Bjarna Ben. eða öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að hjálpa þeim við að frelsa Geir (og sjálfa sig) en gripið fegins hendi það tækifæri að geta verið á móti því sem þeir voru búnir að lofa, með því að samþykkja að vísa málinu frá.

Þannig er það bara. Ég hef enga trú á því að alþingismenn séu upp til hópa einhverjar hetjur. Þeir eru bara venjulegt fólk og greiða atkvæði eins og þeir halda að komi sér og sínum best. Nú er hægt að bíða spenntur eftir því að eitthvað komi í ljós við yfirheyrslurnar hjá Landsdómi. Líklega verður það samt ekki mikið. Geir verður heldur ekki dæmdur nema í mesta lagi til að sýnast eins og Jón Ásgeir á sínum tíma. Mesta spennan er hvernig fara næstu kosningar og hvenær verða þær. Menn eru önnum kafnir um þessar mundir við að skapa sér og sínum flokki sem bestar aðstæður við þær.

Margt er gott í málvöndunarskrifum Eiðs Guðnasonar. Málfar í fjölmiðlum er oft óvandað. Fréttamennskan og þýðingarnar líka. Eiður er samt dálítið einhæfur í skrifum sínum en mikið lesinn geri ég ráð fyrir. Hin pólitíska skúffa Eiðs er hins vegar á fésbókinni. Þar lætur hann flest flakka sem undir stjórnmál heyrir, en ávallt í stuttu máli eins og fésbókin krefst.

Pétur fígúra. Það kemur fyrir að í DV sé að finna athyglisverða hluti. Var að lesa núna áðan frétt um viðtal við Pétur Blöndal. Þar segist hann reyna eftir mætti að halda sínu einkalífi utan við fjölmiðlana, því við að segja frá því minnki stöðugt hans eigið sjálf. Þetta er rétt hjá Pétri en á ekki bara við um fræga fólkið. Mér finnst stundum að ófræga fólkið gangi ansi langt í því bæði á fésbók og annars staðar að upplýsa og jafnvel ýta í andlitið á fólki allskonar upplýsingum sem því kemur ekki við. En svona er þetta. Fólki kemur alls ekki saman um hvernig umgangast skuli eigið ego, hvað þá eitthvað sem utan við það stendur.

IMG 7959Steinar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband