29.2.2012 | 23:01
1626 - Blaðamannafundur um ekkert
Gamla myndin.
Í heimsókn að Velli.
Er hægt að halda blaðamannafund um ekki neitt?
Já, það virðist vera ef maður er forseti Íslands.
Síðast þegar margir blaðamannafundir voru haldnir í röð hrundi bankakerfið. ÓRG ætlar ekki að láta það koma fyrir aftur. Heldur stuðla að því að áfram geti þjóðin reitt sig á að hann haldi vöku sinni.
Svei mér þá. Blaðamannafundurinn hjá ÓRG (sem ég missti reyndar af) virðist ekki hafa verið um neitt. Ólafur virðist bara hafa sagt þar að hann þurfi enn að hugsa sig um og geti ómögulega ákveðið sig.
Ef honum finnst þögnin vera farin að skaða sig segir hann áreiðanlega frá því með grátbólgna hvarma að hann muni fórna sjálfum sér og bjóða sig fram einu sinni enn. Hann geti ekki annað, því Dorritt sjálf hafi hvatt hann til þess. Uppá krónu eða jafnvel aura verður hann líka búinn að reikna út hve mikið fé muni sparast með því að hafa hann áfram á Bessastöðum.
Líklega mun hann sigra í forsetakosningunum í vor ef úr þeim verður. Enginn alvöru frambjóðandi mun koma fram. Platframbjóðendur eins og Ástþór Magnússon munu þó hugsanlega sjá sitt tækifæri þarna. Margir þeirra sem munu mæta á kjörstað af andstöðu við Ólaf munu skila auðu. Það gæti fleytt honum á Bessastaði að þessu sinni. Kannski býður enginn sig fram á móti honum og hvað verður þá um stjórnarskrárkosningarnar? Mér finnst ástandið vera orðið ískyggilegt.
Grein Styrmis Gunnarssonar um Ólaf Ragnar Grímsson sem hann nefnir Að týnast í sjálfum sér, er nokkuð góð. http://www.evropuvaktin.is/stjornmalavaktin/22617/ Trúarjátningar Jóns Vals Jenssonar af sama tilefni eru líka nokkuð fyndnar. Merkilegt að svona guðhræddur maður skuli leita svo langt til vinstri.
Enn er það svo að fólk virðist helst vilja lesa fréttir af útrásarvíkingum. Þeir sem blogga mest um slík mál og eru duglegir að linka í fréttir um þá virðast oft fá mestan lestur.
Fésbókin er orðin fyrirbrigði. Hún er óðum að breytast í sandkassa þar sem hver reynir að koma sínum sandi eða óhróðri og væmni yfir sem flesta. Þar lætur margt fólk allt vaða eins og það sé statt í eldhúsinu hennar Guðrúnar frænku yfir kaffibolla. Gætir alls ekki orða sinna og segir hvað sem er. Svo er það gjarnan slitið úr samhengi og komið útum allt einsog skot.
Ríkisstjórnin virðist vera búin að finna ráð til að halda áfram með málið gegn Geir Haarde og Bjarni Ben. er saltvondur yfir því. Umræður verða væntanlega í dag og atkvæðagreiðsla á morgun Líklega þá um breytingartillöguna frá eftirlitsnefndinni.
Mín kenning um orsakir hrunsins er sú að þegar þjóðarsáttin var gerð voru verðbætur á laun afnumdar en fengu að halda sér á lánum almennings. En eins og allir hljóta að muna var meginfórnin hjá launþegum. Nú er verðtrygging húsnæðislána orðin mesti bölvaldurinn. Spillingin og happdrættishugarfarið spilaði auðvitað líka sína rullu.
Af hverju skyldi þjóðin vera svona happdrættissinnuð. Hún trúði á sínum tíma allri þeirri vitleysu sem frá útrásarvíkingunum kom. Svo eru það fiskveiðarnar. Þær eru oftast mikið happdrætti. Síldarhappdrættið gaf ágætlega af sér um stund en því lauk að sjálfsögðu. Veðrið hér er líka óttalegt happdrætti, Stundum slæmt og stundum verra. Verðbólgan var líka happdrætti fyrir flesta. Sumir græddu á henni en langflestir töpuðu.
Kannski eru það vinstri sinnaðir feministar (og allir þeir sem þjást af pólitískri rétthugsun) sem ég á mesta samleið með í stjórnmálum. Þó finnst mér alltaf einsog það sé einhver íhaldssöm taug sem togi mig til hægri. Sjálfstæðisflokkinn held ég þó að ég muni aldrei kjósa.
Auk þess legg ég til að Steinunn Ólína endurskoði afstöðu sína til forsetaframboðs og bjargi með því Ólafi Ragnari frá þeim hræðilegu örlögum að þurfa að vinna kauplaust næstu fjögur árin.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.