1586 - Better than botox

Scan390Gamla myndin.
Frá Ægisíðu í Reykjavík.

„Better than botox“ hefur verið viðkvæðið í auglýsingum um langan tíma. Kannski hefur þetta orðalag ekki verið algengt á Íslandi en þeim mun algengara í Ameríku. Þar eru líka allskyns töfralyf auglýst undir drep. Mun meira en tíðkast hér á landi. Kannski eru Íslendingar því ögn meira auðtrúa en aðrir.

Nú er allt að kafna í tali um gallaða brjóstapúða. Mér finnst umræðan um þetta mál vera komin útúr öllu korti. Stjórnvöld hafa samt ekki brugðist óskynsamlega við í málinu, en margir hafa misst sig illilega. Auðvitað þekki ég ekki allar hliðar málsins en finnst að sjálfsögðu ekki að það sé þeim að kenna sem notið hafa fegrunaraðgerða að peningaplokkarar hafi platað þær. Vitanlega eiga þær að fá stuðning heilbrigðiskerfisins eins og aðrir.

Las nýlega bók um verksmiðjurekstur í Kína. Höfundurinn var einskonar milligöngumaður á milli verksmiðju einnar sem framleiddi sápur og fegrunarlyf ýmiss konar og amerísks innflytjanda. Eitt af því eftirminnilegasta úr bókinn er lýsing höfundar á því þegar amerískur heildsali hafði samband við hann og kvartaði yfir því að innihaldslýsingin væri nákvæmlega eins á sjampói, baðsápu og fljótandi handsápu frá þeim.

Verksmiðjan hafði svar við þessu á reiðum höndum: „Þetta er allt það sama.“ Ameríski heildsalinn sagðist hafa vitað það, (eða lést hafa vitað það) en samt væri þetta óviðunandi. Innihaldslýsingunni var breytt.

Um daginn (kannski í gær) birti ég gamla mynd frá hestamannamóti og sagði að þar væri riðið hart. Við nánari umhugsun virðist mér sem notkum lýsingarorðsins „hart“ í þessu sambandi (menn geta að sjálfsögðu einnig hlaupið eða keyrt hart) sé einkum afbökun á lýsingarorðinu „hratt“. Engu að síður er orðið talsvert notað í þessari merkingu í talmáli. Í mínum huga er samt nokkur munur á því að „keyra hratt“ eða "keyra hart“.

fésblÉg er ekkert skyldugur til að ansa svona rugli. Geta ekki einu sinni ákveðið hvort ætlunin er að skrifa ensku eða íslensku. Iss.

Já, ég hef gaman af að skrifa, en skelfing er þetta sundurlaust hjá mér. Mér endist aldrei örendið til að gera þetta almennilega. Þar að auki skrifa ég alltof mikið og of oft. Kannski yrði þetta skárra hjá mér ef ég gerði það sjaldnar og betur. Það er samt ekkert víst að svo sé. Þori ekki að taka áhættuna. Held bara áfram að þrugla.

Það sem ég tek mest mark á í þessu sambandi eru vinsældatölurnar sem Moggabloggið lætur tölvu sína reikna út daglega. Samkvæmt henni fara vinsældir mínar sem bloggara fremur vaxandi en hitt. Einu sinni hafði ég það fyrir sið að senda upp blogg á hverju kvöldi um miðnættið. Nú er ég hættur þeirri vitleysu og blogga bara þegar mér sýnist og myndskreyti bloggin í bak og fyrir. (Bókstaflega)

Nú er tækifærið fyrir þá sem vilja verða það sem enskurinn kallar „kingmaker“. Ólafur Ragnar bíður eftir því að hafin verði undirskriftasöfnum sér til stuðnings og með ósk um að hann haldi áfram sem forseti. Það verður eflaust gert. En ekkert liggur á. Framboðsfresturinn rennur ekki út fyrr en í maí. Með þessu ruglar hann marga þeirra í ríminu sem gætu hugsað sér að taka við af honum. Þar að auki langar hann að komast í umræðuna þegar menn taka að þreytast á brjóstapúðunum. Allt er þetta útreiknað af mikilli snilld. Húsakaupin hjá honum og Dorrit eru jafnvel hluti af þeim útreikningi.

Enginn vafi er á að Teitur Atlason, Jónas Kristjánsson og Egill Helgason eru með bestu bloggurum landsins. Þeir (Teitur, Jónas og Egill) eru allir vinstri sinnaðir og það er sama hvað hægri sinnaðir bloggarar segja, þeir eru meðal þeirra bestu. Auðvitað reyna margir að gera lítið úr þeim en hafa ekki nærri alltaf erindi sem erfiði. Þeir blogga að vísu alltaf um fréttir dagsins eða stjórnmál. Kannski verður allt að fréttum sem þeir skrifa um, en góðir eru þeir og skrifa vel.

Bjartur í Sumarhúsum minnir fremur á Norður-Kóreu en Norðurlönd segir Jón Ormur Halldórsson í grein á netinu nýlega. (á visir.is minnir mig) Þetta er alveg rétt og vel að orði komist hjá honum.

IMG 7722Er þetta jólasveinninn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg sammála þér með hart og hratt. Það er hægt að ríða hart án þess að fara hratt. Allavega er það í samræmi við mína máltilfinningu og að ég held málvenju sveitunga minna vestra.

Ellismellur 13.1.2012 kl. 14:29

2 identicon

Það var 28. nóvember og veður tekin að harðna og hestfærð að spiilast.
Það var hörð og magnþrungin reið Þórðar kakala, forðum frá Þingvöllum, út á Mýrar.
Menn fóru ekki hratt yfir.

Ólafur Sveinsson 13.1.2012 kl. 14:49

3 identicon

Þetta með Bjart. Nærri sanleikanum. Get ómöglega rökstutt, hér á þinni síðu. Alltof langt mál.

Ólafur Sveinsson 13.1.2012 kl. 21:02

4 identicon

Bjartur var bara til í huga Halldórs og síðan í huga okkar?

Ólafur Sveinsson 13.1.2012 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband