1554 - Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Þetta er allt ógeðslegt

Scan228Gamla myndin.
Í Lækjargötu.

Einu sinni þegar ég var ungur, eða a.m.k. talsvert yngri en núna, datt mér jafnvel í hug að Styrmir Gunnarsson Moggaritstjóri væri sonur Gunnars Benediktssonar þess alkunna kommúnista. Styrmir er allsekki svo vitlaus. T.d. er ein af örfáum bókum sem auglýstar eru nú fyrir jólin, og mig langar dálítið til að lesa, eftir hann. Hún fjallar um geðveika eiginkonu hans og eflaust margt fleira. Ég hef engan sérstakan áhuga á að kynnast stjórnmálaskoðunum hans en veit þó að hann hefur í starfi sínu haft tækifæri til að kynnast mörgum og mörgu. Fyrirsögnin er höfð eftir honum að því er ég best veit. Mikið tilvitnuð ummæli hans eru þannig:

„Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Þeim sem lengst eru til vinstri í stjórnmálaflórunni og skrifa gjarnan í Smuguna (sem mér skilst að VG gefi út og er ekkert síður vörumerki en sumt annað) verður oft tíðrætt um siðferði. Einkum siðferði annarra. Ekki er víst að þeir sem lítið skrifa um siðferði annarra séu neitt verr staddir siðferðislega en þeir sem það gera. Það er t.d. ekki mikill vandi að búa sér til siðferðislega strámenn og ráðast á þá. Gallinn er bara sá að þessir siðferðislegu strámenn eru yfirleitt nákvæmlega eins og siðferðispostularnir vilja hafa þá. Það þjónar yfirleitt engum tilgangi að nefna ákveðin dæmi því þá getur komið í ljós að jafnvel örgustu þrjótar og útrásarvíkingar hafi snert af siðferði. Jafnvel að þeir séu fórnarlömb aðstæðna sem þeir réðu ekki eða ráða ekki við.

Að einu leyti hafa þessir sjálfskipuðu siðferðispostular þó rétt fyrir sér. Afskiptaleysi er ekki endilega einhver dyggð. Svo er að vísu oftast nær, því ástæðan fyrir afskiptaleysinu er venjulega sú að viðkomandi er hræddur um að taka ranga ákvörðun. Í huga þess sannfærða er slík afstaða samt öruggt merki um siðferðisbrest.

Það sem lítur út fyrir að vera viðleitni hins siðferðislega gallaða einstaklings til að skara eld að eigin köku í augum postulans þarf ekki endilega að vera það. Sá sem sífellt hugsar um siðferði annarra getur sem hægast lent á villigötum með sitt eigið siðferðismat.

Nú er ég búinn að fjasa svo mikið um siðferði að ég er stórlega farinn að efast um mitt eigið. Hversvegna ætti ég aumur bloggari að vera að dæma aðra. Ég hef litlar sem engar forsendur til þess. Þekki ekki nema af afspurn þau dæmi sem skoðanamyndandi eru siðferðislega séð.

Lífeyrissjóðir landsins eiga að vera sameign þeirra sem í þeim eru og þeir eiga að kjósa stjórnir þeirra. Þetta er röksemd sem oft heyrist og ekki er hægt að mæla á móti. Sjóðirnir urðu þó til með þeim hætti að atvinnurekendur þykjast hafa heilmikið um þá að segja. Þeir virðast ekki vilja viðurkenna að greiðslur sem þeir inna af hendi í lífeyrissjóðina séu hluti launa. Á það verða þeir samt fyrr eða síðar að fallast. Um þetta hefur víða verið deilt.

Svipað er um verðtrygginguna að segja. Stjórnvöld geta bannað slíka tengingu á venjulegum húsnæðislánum frá og með deginum í dag en hugsanlega ekki afturvirkt og starfsemi Íbúðalánasjóðs mundi breytast veruleg við slíkt bann.

IMG 7279Verið að hjálpa Tinnu í „lingana“ því hún er að fara út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Var einmitt að skruna yfir vel-auglýsta (á feisbúkk) grein á Smugunni og miðað við kommentadræsu á höfundurinn marga viðhlæjendur. Greinin fjallaði um "siðferði annarra" og var spjótum beint að þeim sem samþykktu, þess vegna með þögninni, slæmt siðferði, sem væri vitaskuld vont. Allt saman gott og blessað þar til rifjaðist upp fyrir mér að höfundur greinarinnar (sem virtist gasalega réttsýnn) hefur verið ótrauð við að blammera mann og annan fyrir litlar sakir ...

Harpa Hreinsdóttir 6.12.2011 kl. 12:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband