1473 - Tjáningarfrelsi og nafnleynd

Um þetta tvennt hef ég margt að segja. Sumir fara alltaf eftir fyrirsögnunum þegar þeir velja hvaða blogg þeir eigi að lesa. Hvorttveggja er nauðsynlegt, tjáningarfrelsið og nafnleyndin, en hvorttveggja er líka oft misnotað herfilega.

Í gær sendi Gísli málbein http://malbeinid.wordpress.com/ mig á bloggspottið http://vegidurlaunsatri.blogspot.com/ og þar var margt að finna. Veit ekki hver vegur þar úr launsátri en ég las það sem þar var skrifað um „Tjáningarfrelsi með ábyrgð“ og líka manifestóið sem hún vísaði í.

Um margt er ég sammála þeirri sem þar heldur á penna, en ekki allt. Það eru margir sem hafa mikinn áhuga á þessum málum og sá áhugi hefur aukist eftir að allir geta orðið tjáð sig næstum hvar sem er og um hvað sem er. Hverjir lesa og verða fyrir áhrifum er svo alltaf spursmál og engin leið að vita.

Mér virðist að gríðarlega margir lesi og skoði fésbókina og athugasemdir á vefmiðlunum, en ekki get ég sagt að það sé fróðlegur lestur. Þar virðist vera mest tekið eftir þeim sem hæst hafa og hver og einn reynir að yfirgnæfa annan. Margir hafa stöðugt horn í síðu nafnleysingja, en mér finnst þeir nauðsynlegir. Það er líka hægur vandi að svindla á kerfum sem eiga að koma í veg fyrir nafnlausar athugasemdir og þessháttar.

Allan fjandann er oft reynt að réttlæta með tjáningarfrelsi. Klassíska spuringin þar er hvort leyfa eigi hverjum sem er átölulaust að hrópa „eldur“ í troðfullu kvikmyndahúsi. Auglýsingar hafa ekkert endilega neitt með málfrelsi að gera. Peningar geta samt ruglað alla.

Fyrr en varir er oftast farið að deila um stjórnmál ef talað er um nafnleynd og tjáningarfrelsi. Norski öfgamaðurinn hefur sennilega, auk þess að drepa allmarga, unnið hægrisinnum mikið tjón því þeir voru langt komnir með að telja (auðtrúa) fólki trú um að það væru bara vinstrisinnaðir öfgamenn og al-kvæda skæruliðar sem dræpu fólk.

Margt fleira væri hægt að segja um þessi mál en ég er að æfa mig í að vera ekki of langorður. Líka held ég að fleiri lesi það sem stutt er en langt.

En kannski ég segi nokkur orð um annað fyrst ég er byrjaður að blogga.

Gallinn við skoðanakannanir er að ekki er hægt að stjórna eftir þeim. Niðurstöðurnar eru líka ansi breytilegar og óvissan mikil. Greinilegt er að núverandi ríkisstjórn er töluvert óvinsæl. Kannski hún hækki samt aðeins í áliti ef Jóhanna forsætis lætur verða af því að rassskella Ólaf Ragnar. Hún er búinn að máta nokkuð marga við ráðherrastóla. Sumir fara í fýlu þegar þeim er hafnað og sumir reyna að spilla fyrir. Jón Bjarnason hafði með sér lím og nú er ómögulegt að koma honum úr ráðherrastólnum.

Við SiglufjörðIMG 6515.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband