4.9.2011 | 16:55
1467 - Landsala og stjórnarskrá
Já, mér finnst sífellt minna eftirsóknarvert að vera síbloggandi. Það er langbest að blogga bara þegar andinn (öndin??) kemur yfir mann. Eiginlega leiðist mér líka að blogga um fréttir og stjórnmál. Það eru áreiðanlega margir aðrir færari til þess en ég. Samt á ég oft erfitt með að stilla mig.
Skrítið þetta Nupo-mál sem allt er að verða vitlaust útaf. Segjum að við Íslendingar eignumst einhvertíma peninga. Annað eins gæti nú skeð. Megum við þá kaupa jarðir í Kína eins og okkur lystir? Ég held að við megum það í ESB í krafti aðildar okkar að EES. Ekki eins viss um Kína. Mér dettur helst í hug að ISG sé að plotta endurkomu sína i íslensk stjórnmál.
Einu sinni var Ólafur Ragnar á móti því að selja útlendingum jarðir á Íslandi. Nú vill hann selja sem mest og sem fyrst og veit varla hvað útlendingar eru, en Lilja Mósesdóttir vill það ekki. Skrítið. Það er ekki víst að ströng löggjöf verndi best auðlindir landsins. Mestu ræður auðvitað hvernig dómstólarnir túlka lögin. Annars tekur bara byltingin og stjórnleysið við og fjárfestar vilja ekki einu sinni snerta okkur með löngum töngum.
Annars ráða stórveldin því sem þau vilja ráða í heiminum. Ef illa gengur að ráða við fyrirbrigði eins og WikiLeaks má bara dreifa um þau óhróðri. Kínverjar eru stórveldi eða a.m.k. á leiðinni þangað.
Ekki er líklegt að minnst verði á stjórnarskrárdrögin á því framhaldsþingi sem nú stendur yfir. Nýtt þing mun taka til starfa í byrjun október og þá kemur í ljós hvernig fjórflokkurinn ætlar að haga baráttu sinni gegn drögunum. Það er alls ekki víst að þingmenn þori að krukka mikið í þau. Einhverju munu þeir samt vilja breyta og engan vegin er útséð um hvort eða hvernig almenningur verður spurður um afstöðu sína til nýrrar stjórnarskrár. Hugsanlega verða skoðanakannanir látnar duga og málið síðan svæft. Mál virðast vera að þróast á þann veg að stuðningur við stjórnarskrárdrögin sé túlkaður sem andstaða við stjórnmálamenn alla. Það er að því leyti rétt að þeir sem á Alþingi sitja eru alls ekki hæfir til að fjalla um stjórnarskrána. Punktur og basta.
Ég á erfitt með að stilla mig um að skrifa um ESB. Mönnum hættir til að líkja saman (í huganum ef ekki vill betur) stuðningi við ESB og þeim stuðningi sem vinstri menn (margir hverjir) sýndu Rússlandi og Sóvétríkjunum fram í rauðan dauðann á sínum tíma. Þarna er mjög ólíku saman að jafna þó vissulega sé hægt að tengja ESB við vinstri stefnu á mörgum sviðum. Ekki er síður hægt að tengja hægri stefnur af ýmsu tagi við Bandaríki Norður Ameríku. Sú barátta sem áður fyrr tengdist einkum mismunandi heimspekistefnum er úrelt orðin í dag.
Af hverju skyldi ég alltaf vera að rembast við að þykjast voða gáfaður? Ég er það ekki. Hef samt komist í gegnum lífið með besservisseraháttinn einkum að vopni. Nú er Gúgli búinn að eyðileggja hann fyrir mér. Þá er að þykjast geta skrifað betur en aðrir. Það er ekki erfitt, því fæstir mega vera að því að skrifa neitt að ráði. Fólk hugsar samt sitt. Vinsælt er í stjórnmálum að gera ráð fyrir að pólitískir andstæðingar hugsi afar lítið og ómarkvisst. Svo er bara alls ekki. Best er að gera alltaf ráð fyrir að aðrir séu a.m.k. jafngáfaðir manni sjálfum. Auðvitað verður maður stundum fyrir vonbrigðum. Til er heimskt fólk. En það eru sem betur fer afar fáir sem svo illa er komið fyrir.
Það er ósköp venjulegt að ríkisstjórnir njóti ekki mikils fylgis úti í þjóðfélaginu. Það er líka nokkuð algengt að meirihluti á Alþingi sé tæpur. Mér finnst meira áberandi núna en oft áður að þeir sem um stjórnmál fjalla séu á móti öllu nema sjálfum sér. Í skoðanakönnunum kemur fram að ríkisstjórnin njóti lítils fylgis og stjórnarandstaðan líka. Það finnst mér merkilegt og e.t.v. vera ávísun á breytta tíma.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.