3.9.2011 | 11:11
1466 - Blogg og bókmenntir
Mér sýnist að með þessu lagi sem ég hef tekið upp vinnist einkum það að bloggin lengjast að mun. (Ég á við þann sið að blogga bara stundum og á öllum mögulegum tímum.) Það gerir kannski lítið til því mér finnst að mörgu leyti þægilegra að hafa þetta svona. Kannski tekst mér smám saman að ná betri tökum á þessu. Sjáum til.
Páll Ásgeir Ásgeirsson er einn af þeim bloggurum sem ég hef nokkurt dálæti á. Hann bloggar gjarnan öðru hvoru og jafnvel allmikið, en hættir svo. Skiptir nokkuð oft um bloggsetur og ekki er auðvelt að finna út hvar hann bloggar hverju sinni eða hvort hann stundar bloggun. Veit ekki hvar eða hvort hann bloggar núna. Einu sinni var hann í vist hjá bróður sínum Gísla Ásgeirssyni þýðanda og hlaupara, svo var hann hjá Eyjunni, einhverntíma hjá Vísi o.s.frv. Aldrei þó hjá Moggablogginu, að ég held. Ef ég tek tryggð við einhvern ákveðinn bloggara vil ég geta fylgst með honum. Það skiptir mig ekki meginmáli hvar hann bloggar þó það hve auðvelt og þægilegt er að nálgast skrif hans geti haft áhrif á hvort ég les blogg hans reglulega eða ekki.
Badabing aka Þórarinn Þórarinsson (sem ég skrifaði víst eitthvað um fyrir nokkru) er arfavitlaus núna útaf vændismálum. Segist hafa sagt þetta allt áður. (Í bókinni sem hann gaf út með Símoni Birgissyni í fyrra.) Hef ekki lesið bókina og ekki fylgst mikið með vændisumræðunni undanfarið, en Badabing heldur áfram með sitt hvítt á svörtu (í staðinn fyrir svart á hvítu sem venjulegast er og betra.) Líklega lesa hann nokkuð margir þó hafa verði talsvert fyrir því. Þessi heimasíða hans fer eftir sem áður dálítið í taugarnar á mér og sömuleiðis sá siður hans að snúa ómerkilegustu hlutum á haus í sambandi við útlitið á blogg sínu.
Þetta er svosem ekkert bókmenntblogg hjá mér þó mér sé minnisstætt að þegar við hjónin vorum á Tenerife í vetur sem leið, máttum við róta í dálitlu bókasafni sem þar var og fá bækur lánaðar ókeypis að vild. Safn þetta held ég að hafi verið tilkomið á þann hátt að fólk sem dvalið hafði á hótelinu hafði skilið bækurnar eftir. Þarna var talsvert af bókum. Flestar voru þær á ensku eða þýsku, en svo voru líka bækur á ýmsum öðrum tungumálum og jafnvel sjaldgæfum málum eins og íslensku og finnsku. Finnsku bækurnar fengu alveg að vera í friði fyrir mér. Eina bók á íslensku las ég þarna spjaldanna á milli. Hún er eftir franskan höfund og heitir Skíðaferðin. Verulega góð bók. Í auglýsingu frá JVP sem mér skilst að hafi gefið bókina út, er efni bókarinnar lýst þannig:
Nicolas er lítill strákur í skíðaferð með bekknum sínum lengst uppi á fjöllum, fjögur hundruð kílómetra frá heimili sínu. Strax frá upphafi er ljóst að ógn steðjar að. Við finnum það, við vitum það, alveg eins og hann hefur alltaf vitað það.
Í ferðinni breytist kvíðinn sem býr innra með honum í skelfilega martröð. Við vitum að óttinn er raunverulegur og að eitthvað er í þann veginn að gerast. Eitthvað sem enginn fær stöðvað.
En við hefðum helst kosið að líta fram hjá því hvaðan hættan kemur, hver ógnvaldurinn er.
Man að ég las líka bókina um Ross Dane eftir Aksel Sandemose þarna. Líklega hefur hún verið á dönsku eða norsku. Ágæt bók og Sandemose hefur greinilega verið góður rithöfundur. Sömuleiðis las ég talsvert eftir Carl Sagan og bókina um Önnu á Hesteyri o.fl..
Það er nú til lítils að telja upp bækur sem ég hef lesið og man eftir. Óspennandi lesning held að það hljóti að vera.
Læknadóp hefur verið talsvert í umræðunni að undanförnu. Þeir sem þjást af ADHD (ofvirkni og athyglisbresti) hafa liðið fyrir þá umræðu. Enginn vafi er í mínum huga að SÁÁ-samtökin og fréttastofa ríkissjónvarpsins hafa valdið talsverðum skaða meðal þeirra sem þurfa á meðölum við þessum sjúkdómi að halda. Gagn hefur líka eflaust verið unnið með þessari umræðu. Það er samt ekkert nýtt að læknar ávísi miklu af þeim lyfjum sem eiturlyfjafíklar misnota. Yfirvöld hafa lítið gert af því hingað til að sporna við því. Kannski breytist það samt.
SÁÁ-samtökin hafa margt gott gert fyrir áfengissjúklinga, og eflaust einnig marga sem misnota önnur vímuefni, en ég held að þau samtök eigi ekki að ráða öllu varðandi opinbera stefnu í þessum málum.
Eini fasti pistillinn sem ég les yfirleitt alltaf í Fréttatímanum er sá sem Jónas Haraldsson skrifar. Honum bregst sjaldan fyndnin og sjálfhæðnin.
Það er ótrúlegt hvað hægt er að móta börn. T.d. með því að hafa áhrif á matarvenjur þeirra. Slíkt gæti sem hægast mótað framtíðarheilbrigði þeirra. Líka er ótrúlegt hve margir af hæfileikum barna eru meðfæddir. Máltaka barna er hreinasta undur. Sá hæfileiki hlýtur að vera að hluta til meðfæddur. Hvernig geta þau lært að tala á svona stuttum tíma? Svo læra þau gjarnan að lesa fljótlega eftir það. Hvernig er það hægt?
Mikið hlýtur það að vera hrikaleg vitneskja að vita að maður eigi skammt eftir ólifað. Svo ógnvekjandi finnst mér slíkt vera að ég gæti jafnvel hugsað mér sjálfsmorð við slíkar aðstæður. Ekki er meiningin að hljóma sniðuglega í þessu efni en samt er þetta nú kannski dálítið fyndið.
Ef maður er í megrunarkúr eins og mér skilst að ég sé, er óbrigðulasta merkið um að hann sé að gera eitthvert gagn ef maður er sísvangur.
Mikið er hvað einn kínverji getur orðið frægur. Sá bloggari eða fésbókari er varla til sem ekki veit hver Huang Nubo er. Hann er fyrir löngu orðinn frægari en Hjörleifur greyið sem gaf honum peysuna. Eða eru það kannski peningarnir hans sem kalla svona óþyrmilega á frægðina?
Já, þetta er ertuygla. Mér finnst hún frekar falleg á litinn og ekkert sérstaklega ógeðsleg, en hún er víst óttalegt skaðræði fyrir tré og gróður. Svo er sagt að fuglarnir vilji hana ekki og þessvegna hljóti hún að vera vond á bragðið. Veit ekki hvernig fiðrildin eru, en held að þau séu ekkert sérstök. Kannski svolítið stærri en þau venjulegustu.
Athugasemdir
Sennilega er bara betra að blogga þegar maður finnur hjá sér hvöt til þess.
Um þetta að vita að maður á skammt ólifað og freistina að verða fyrri til og taka líf sitt: ég átti góðan vin sem þurfti að berjast við krabba og það ekki bara einu sinni. Einhvern tíma ræddum við enginn þetta og hann sagði eftirminnilega setningu: Það er enginn dauður fyrr en hann er dauður. Og hann notaði það sem hann átti eftir til að lifa út í hörgul eftir því sem hann mögulega gat -- og njóta þess eftir því sem hann mögulega gat.
Það var ekki hans karakter að gefast upp fyrr en í fulla hnefana.
Þannig vona ég að mér beri gæfa til að lifa líka.
Sigurður Hreiðar, 3.9.2011 kl. 19:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.