1450 - ESB meðal annars

113Gamla myndin.
Þarna er Björgvin að stökkva ofan af skúrþakinu heima. Kannski eru húsin í baksýn það merkilegasta við myndina. Fremst eru skúrar hjá Svavari Marteinssyni en síðan koma hús Stefáns hreppstjóra og Nýja Reykjafoss. Svona hattlaga efri hæðir voru mjög í tísku um þetta leyti.

Ef keppikeflið hjá manni er að ná sem mestum vinsældum á blogginu þá er ekki nóg að eignast marga bloggvini. Maður þarf að koma sér upp óvinum líka. Sennilega er það vegna þess hve ónýtur ég er við það, sem ég er ekki stórum vinsælli bloggari en ég þó er.

Á fésbókinni er þetta öðruvísi. Þar geturðu fengið upplýsingar um hvaðeina sem fésbókarvinir þínir taka sér fyrir hendur (og vei þeim ef þeir nenna ekki að sinna þér) Nýjasta viðbótin þar er að útvarpa því til allra sem vilja vita hver hefur verið í hvaða leik undanfarna klukkutíma. Sumum finnst þetta sjálfsagt. Mér finnst það ekki, enda fullur fésbókarandúðar.

Einhverntíma sá ég því haldið fram (af bókmenntafræðingi líklega) að allar bækur Vilborgar Davíðsdóttur væru unglingabækur. Nú er ég að lesa Oddaflug Guðrúnar Helgadóttur og þar er því haldið fram óhikað (í formála eða einhversstaðar) að þetta sé fullorðinsbók. Ég sé bara ekki muninn og líkar ekki svona dilkadráttur. Það getur haft einhvern tilgang að flokka bækur í barnabækur og aðrar bækur. En að halda því fram að bækur séu skrifaðar fyrir ákveðna aldursflokka eftir það er í besta falli óttalegur kjánaskapur.

Birti mynd af Vali Valssyni fyrir stuttu. Einu sinni vann ég með pabba hans og Herði mági við að slátra hesti uppá Reykjum. Þetta var í byggingunni. Niðri. Man að fyrir ofan þann stað sem við athöfnuðum okkur á var gat í gólfið á efri hæðinni. Þar komun við fyrir planka og hífðum skrokkinn síðan upp að aftan. Þegar eitthvað var liðið á athöfnina þurfti Valur að laga tilfæringarnar á efri hæðinni. Þá brotnaði plankinn og slóst í Val. Við höfðum orð á því að hesturinn, þó dauður væri, væri með þessu að hefna sín á Val, því hann hafði nefnilega skotið hann. Það gerði hann með riffli og mér er minnisstætt hvernig hestgreyið hrundi niður um leið og skotið hljóp af. Nokkrum dögum eftir slátrunarathöfnina kom svo mikil þráalykt af úlpuræflinum, sem ég var í við það, að ég varð að henda honum.

Stóra bróður er sífellt að fara fram. Fésbókin fylgist með flestu sem fram fer á netinu. Vísa-kortið segir frá því hvar þú verslar. Eftirlitsmyndavélarnar upplýsa um hvað þú aðhefst utandyra. Veggir heimilisins eru samt í friði þangað til lögreglan kemur í heimsókn.

Einhver minnir mig að hafi verið að kvarta undan því í athugasemdum að ég skrifaði lítið orðið um ESB. Nú skal bætt úr því.

Það er sannarlega hlálegt að sjálfstæðismenn sem hingað til hafa mælt með aukinni samvinnu við þær þjóðir sem við okkur vilja tala skuli nú hafa tekið sér bólfestu meðal mestu einangrunarsinna landsins. Já, svo er að sjá sem Bjarni Benediktsson sé algjörlega á valdi mestu harðlínupésa flokksins. Nú berst hann fyrir því að viðræðum við ESB verði hætt. Þó ég trúi ekki að hann hefði erindi sem erfiði ef hann flytti slíka tillögu á alþingi er líklegt að hann horfi bara til landsfundar flokksins. Allt er til sölu þegar um það er að ræða að halda völdum í stjórn flokksins.

Vopnin virðast vera að byrja að snúast í höndum andstæðinga aðildar að ESB. Líklega hafa þeir toppað of snemma svo notað sé íþróttamál, sem eins og allir vita er sú fegursta og stórasta íslenska sem fyrirfinnst. Því er þó alls ekki að neita að einhverjar líkur eru á því að aðildarsamningur sem sennilega næst verði felldur. Auðvitað fer það allt eftir því hvenær þessi margboðaða þjóðaratkvæðagreiðsla verður. Ég held að ríkisstjórnin stefni að því að hafa hana ekki fyrr en eftir næstu alþingiskosningar. Alþingiskosningarnar verða þá einskonar upphitun fyrir sjálfa ESB atkvæðagreiðsluna sem án efa verður mun afdrifaríkari en nokkrar alþingiskosningar.

Fyrir þremur vikum komst umboðsmaður alþingis að þeirri niðurstöðu að Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra hafi gengið í berhögg við stjórnarskrá ríkisins þegar hann ákvað tolla á landbúnaðarvörur, sem Íslendingum er skylt að leyfa innflutning á. Enginn stjórnmálamaður hefur samt þorað að anda á Jón og er ekki annað að sjá en hann eigi að fara með alræðisvald í þessum málum. Ekki þarf að orðlengja það að hann gengur með þessu freklega á rétt neytenda í landinu. Neytendasamtökin í landinu eru það máttlaus að þau láta þetta yfir sig ganga. Það er helst að kaupmenn séu að malda í móinn og eru það slæm örlög fyrir þá sem áhuga hafa á neytendamálum að þurfa að vera alveg sammála kaupmönnum um þetta.

IMG 6327Skútur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband