10.8.2011 | 00:05
1444 - Um tóta sjálfan o.fl.
Þetta er kvennalið í knattspyrnu frá Bifröst um 1960. Aftari röð frá vinstri: Ingibjörg Bjarnadóttir, Jóna Þorvarðardóttir, Rósa Gísladóttir, Fríður Guðmundsdóttir, Védís Elsa Kristjánsdóttir og Hildur Kristjánsdóttir. Fremri röð frá vinstri: Lilja Ólafsdóttir, Margrét Sigvaldadóttir, Jakobína Ingadóttir, Jóhanna Karlsdóttir og Hugrún Einarsdóttir.
Það væri veikleikamerki hjá mér að fjölyrða að þessu sinni mikið um Badabing. Hann virðist vera hættur og þá er eðlilegast að ég hætti líka. Annars fannst mér hann með skrifum sínum staðfesta næstum allt sem ég sagði um hann í upphafi.
Veðrið virðist ætla að leika við útivistarfólk núna í byrjun ágúst. Veðurstofan spáir að vísu láti á hitanum en leyfilegt er að vona að þeim skjátlist.
Nú er tími ættarmótanna. Þau hafa þann ókost að með tímanum verða þau svo stór að enginn hefur yfirsýn yfir ósköpin. Þá verður fangaráðið oft að minnka þau og þá myndast afgangskynslóðir sem hlaupið er yfir. Annars er mín tilfinning sú að allir eigi þess kost að sækja eitt eða tvö ættarmót eða fermingarveislur á hverju ári. Þegar aldurinn færist yfir getur það skipt miklu. Og krakkarnir láta sig hafa það, einkum af því svo margir mæta.
Allt virðist vera að fara fjandans til í Bretaveldi. Krakkar og unglingar æða um, brjóta rúður, ræna verslanir og kveikja í húsum. Svo eru hlutabréf að falla í verði einu sinni enn og gengisskráning öll á hraðferð. Bensín lækkar, en gull hækkar o.s.frv.. Fræðingar allskonar reyna að fullvissa okkur um að allt sé þetta mjög eðlilegt.
Æsast nú leikar í Kögunarmálinu. Einar Kárason er farinn að skrifa Teiti til stuðnings á fésbókina sína. Kannski fleiri fylgi hans fordæmi. Það er ómögulegur andskoti að láta peningana rétt einu sinni ráða dómsmálum. Stöðvum þá ósvinnu.
Sagt er að Páll Óskar bróðir Sigrúnar hafi sagt eitthvað á þessa leið:
Mér finnst gay-pride-hátíðin vera löngu komin út fyrir það að vera bara einhver hátíð vegna mannréttindabaráttu samkynhneigðra. Þetta er hátíð fyrir alla þá sem láta sig lágmarksmannréttindi einhverju varða. Alla þá sem eru orðnir leiðir á hatrinu og níðinu - inni á netinu, öllum ógeðslegu kommentunum sem hægt er að segja um alla minnihlutahópa.
Það er engu líkara en sá eini sem fær að vera í friði í þessum heimi sé hvítur straight karlmaður í jakkafötum, hægrisinnaður og á peninga. Og stundum er þessi karlmaður með Biblíuna í annarri hendi og byssuna í hinni. Allt annað má kalla einhverjum nöfnum. Allt annað er hægt að uppnefna: Helvítis femínisti, helvítis kellingar, helvítis hommar, helvítis þið, bla, bla! Þannig að út með kvenfyrirlitninguna, út með fyrirlitningu á öðrum kynþáttum, öðru fólki sem er af annarri stöðu og stétt en þú. Við eigum öll að sitja við sama borð. Og til þess er þessi dagur. Við verðum að gera þetta einu sinni á ári. Við megum ekki sofna á verðinum.
Útaf þessu er mikið rifist. Rifrildið stafar einkum af því að með þessu setur hann pólitískan svip á mannréttindabaráttuna alla. Deila má um skynsemina í því, en að einu leyti hefur Páll Óskar rétt fyrir sér. Það er ekki tekið eftir neinu nema þekktur einstaklingur segi það og ýkji svolítið. Margir eru þeir sem vilja láta mannréttindabaráttuna sjá um sig sjálfa. Hún gerir það bara ekki. Það þarf einhvern til að sjá fataleysi kóngsins.
Við lystigarðinn á Akureyri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.