1443 - Umsóknin veikir stjórnina

106Gamla myndin.
Hér er Ingibjörg Bjarnadóttir að syngja með skólahljómsveitinni að Bifröst. Guðvarður Kjartansson og Jón Illugason í bakgrunni.

Reiðilestur Þórarins Þórarinssonar um mig kemur mér ekkert á óvart. Vitleysan sem hann gerir er einkum sú að hann skuli svara því sem ég skrifaði um hann. Ég hef áður reynt að reita Stefán Pálsson (sem lengi vel þóttist vera besti bloggari landsins) til reiði en hann hefur gætt þess að svara því engu. Kannski jafnvel ekki séð mín skrif. Þann pól hefði badabing betur tekið í hæðina í staðinn fyrir að ætla sér að kaffæra mig með fúkyrðum.

Hann gætir þess ekki að hvert orð sem hann skrifar um mig hittir hann sjálfan til baka með þúsundföldu afli. Honum væri miklu nær að svara mér ekki. Gáfur hans duga samt ekki til að sjá svo einfaldan hlut. Þessvegna helgar hann mér heilt blogg.

Það hefur Kaupmannahafnar-Villi reyndar gert líka og mér finnst hann ekki hafa grætt á því. Með því að pota svona í viðurkennda bloggara hefur mér tekist að öðlast nokkra viðurkenningu. Svo mikla reyndar að stíllinn Sæmundarháttur í bloggi er viðurkennd staðreynd í huga flestra bloggara þó þeir skilji hana kannski á örlítið mismunandi vegu.

Það er engin vitleysa að ESB-umsóknin hefur með vissum hætti lamað ríkisstjórnina. Vinstri-grænir eru á móti aðild en vilja gjarnan vera í ríkisstjórn. Þetta er slæmt og veldur því að stjórnin á í erfiðleikum með að koma mörgum málum sínum fram. Kannski var erfitt að koma auga á annað stjórnarmynstur þegar þessi stjórn var mynduð.

Mér sýnist augljóst að vinstri-grænir ætli ekki að hleypa umsókninni í gegn áður en kjörtímabilinu lýkur. Það þýðir að næstu alþingiskosningar munu einkum snúast um ESB-aðild. Eftir því hefur lengi verið beðið. Evruland á í vissum vandræðum um þessar mundir og það kann að hafa áhrif á úrslit kosninganna hér á landi. Hvaða flokkar verða einkum fyrir barðinu á Evruvandræðunum er ekki gott að sjá. Nýjir flokkar kunna líka að líta dagsins ljós.

Enginn vafi er á því að aðildin að ESB er miklu meira afgerandi mál en ný stjórnarskrá. Nýja skráin er bara nokkurskonar skraut og skiptir litlu máli. Andstæðingar aðildar hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir þessu og berjast gegn aðild með öllum ráðum. Þeim hefur orðið nokkuð ágengt en á endanum hlýtur að fjara undan þeim. Þjóðremban sem þar ríður húsum getur á endanum orðið til trafala.

Viðureign þeirra Gunnlaugs Sigmundssonar og Teits Atlasonar um Kögunarmálið getur orðið mjög athyglisverð. Peningarnir eru Gunnlaugs megin og vel getur verið að þar endi sigurinn eins og venjulega. Þó er ekki því að neita að Teitur er ansi ákveðinn. Samskot honum til handa munu varla skila miklu. Það er ekki venjan. Þó mörgum virðist hans málstaður mun betri en Gunnlaugs er hætt við að fáir vilji láta peninga af hendi rakna til að styðja þann málstað. Ef lögfræðingur Teits getur ekki beðið með að fá greiðslu þar til úrslit liggja fyrir þá er ástæðulaust að leita til dómstólanna.

Eru það gömlu myndirnar sem ég er farinn að birta nokkuð reglulega sem tryggja mér þann aukna gestafjölda sem ég þykist hafa orðið var við að undanförnu? Ég veit það ekki, en það er alveg hugsanlegt. Líklegra er það en að skrif mín séu allt í einu farin að verða til muna áhugaverðari. Ég hef hvað eftir annað orðið var við að þegar manni tekst vel upp með þau koma fleiri gestir. Ég er löngu hættur að gera ráð fyrir að það sé einhver tilviljun.

Eiginlega veit ég fátt hvað snertir þessar myndir sem ég er sífellt að birta. Þær eru ekkert sérlega góðar en ég sleppi því yfirleitt aldrei að vera með þær. Kannski lesendur mínir reikni bara með því að fá (eða þurfa) að berja þær augum. Kannski ætti ég að hætta að vera með gömlu myndina fyrst. Uppskriftin ein gömul og ein nýleg á dag hugnast mér þó sæmilega. Ég er líka orðinn svo vanur að vera með nokkrar myndir í hvorum flokki tilbúnar að mig munar lítið um þetta.

IMG 6281Túlípanar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband