1440 - Tilvonandi ofurbloggari

103Gamla myndin.
Bifröstungarnir Jón Alfreðsson, Gunnar Magnússon og Guðmundur Jóhannsson. Myndin er sennilega tekin á toppi Baulu.

Nú er loksins hægt að tala um eitthvert myrkur. Nú tekur síðsumarið við og sennilega verður það ekki síðra en undanfarið. Bjartsýni mín er jafnan sýnu mest hvað snertir veðrið. Þó er ég með bjartsýnustu mönnum. Trúi því t.d. að mannkyninu sé sífellt að fara fram, þrátt fyrir allar fréttir um hungursneyð og aðra óáran. Heimsendaspádómar eru samt alltaf jafnvinsælir. Kannski það sé vegna þess að flestir vilja jafnan sjá (eða frétta um) hið versta en vona hið besta. Svo er auðvitað hugsanlegt að aðrir séu ekki eins bjartsýnir og ég. Er nú samt ekki trúaður á það. (Ég er nefnilega svo bjartsýnn).

Varðandi bréfskákirnar. Held stundum áfram að leika þó ég sé greinilega með tapað tafl. Af hverju veit ég varla. Forðast að eyða miklum tíma á þannig skákir, en ef viðkomandi leikur af sér er mér að mæta. Margir virðast hugsa svipað. Leiðinlegt að eyða orku í skákir sem andstæðingurinn hugsar kannski næstum ekkert um.

Hvenær verða menn (og konur) ofurbloggarar? Mig langar nefnilega svo að verða ofurbloggari og er búinn að rembast við í mörg ár. Er það þegar fjölmiðlungar fara að vitna í mann? Já, en þeir eru svo vitlausir. Er það þá þegar gestafjöldinn fer yfir einhver ákveðin mörk? Hver eru þau mörk þá? Er það þegar maður er kominn upp á lag með að blogga bara eina setningu í einu, einsog Eiríkur? Eða ef maður tekur nógu mikið uppí sig, einsog Jónas? Eða les fésbókina daglega spjaldanna á milli, einsog Jakob Bjarnar virðist gera? Þetta eru spurningar sem ég er alltaf að reyna að finna svör við, en gengur illa.

Kannski er metið hjá mér að vera nr. 26 á vinsældalista Moggabloggsins. Fylgist ekki alveg nógu vel með. Sennilega er það bara nokkuð gott hjá mér. Þar fyrir ofan eru nefnilega sannkallaðir ofurbloggarar, jafnvel ofurfréttabloggarar og sjálfur Ómar Ragnarsson.

Nú er kominn nýr fréttamiðill til sögunnar, skilst mér. Fréttahorn.is heitir hann víst. (En passið ykkur á é-inu.) Og býður jafnvel borgun. Ekki fell ég samt fyrir svona löguðu. Þeir segjast ætla að selja auglýsingar. Gangi þeim vel. Þegar auglýsingarnar eru orðnar eins margar og innleggin þá skal ég íhuga að koma til þeirra. Það er að segja ef ég verð beðinn fallega.

Ég er eiginlega alveg hættur að óttast að ég hafi ekkert að segja í blogginu mínu. Á meira að segja eina örsögu óuppaða. Les hana kannski aðeins betur yfir. Vandamálið er að hætta á réttum tíma. Annars verður þetta alltof langt. Sko mig. Þessi málsgrein er ekkert of löng.

Skaftárhlaup eru að komast úr tísku. Nokkur hlaup virðast vera þar í hverri viku. Menn þreytast á þessu. Þó ekki fjölmiðlafólk því fylla þarf heilmarga dálksentimetra. Eitt hlaup á dag, kemur skapinu (ritstjórans) í lag. Múlakvíslin var miklu betri. Svoleiðis hlaup þyrftu að vera mánaðarlega.

IMG 6255Og fjórflokkurinn vonandi líka!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband