5.8.2011 | 00:18
1439 - Er Jakob horfinn?
Hvergerðingarnir Reynir Unnsteinsson, Sigurður Jónsson og Jóhann Ragnarsson.
Aldrei slíku vant, þá er ég ekki ennþá búinn að láta mér neitt detta í hug til að skrifa um í dag. Ég er þó alls ekki orðinn neitt örvæntingarfullur. Finnst ég einkum vera að bregðast sjálfum mér ef mér dettur ekkert í hug. Ég er nefnilega vitandi vits búinn að venja mig á að blogga á hverjum degi. Hvort sem ég hef eitthvað að segja eða ekki.
Fréttir af fésbók var eitt af því fáa sem ég las stundum. En nú er Jakob Bjarnar víst týndur. Ekki var þó allt mjög merkilegt sem þarna var að finna, en líklega er það fésbókinni að kenna eins og svo margt annað. Þetta ku hafa verið blogg á Eyjunni og nú er Reynir Trausta á DV kominn með áhyggjur af þessu. Ég verð að segja það. Mér finnst svona upphlaup skipta litlu máli en það er þó greinilegt að Jakob fylgdist vel með fésbókinni og var fundvís á undarlega hluti þar. Nú er hann víst farinn í sumarfrí og það er bara í lagi mín vegna.
Orðið á götunni segir að stjórnarskrármálið hafi mikinn stuðning almennings þó stærstu fjölmiðlarnir hafi tekið því illa og reynt að gera sem minnst úr því. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að fá einhverskonar þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Þjóðin styður þessa tilraun og vill minnka vald fjórflokksins. Stjórnmálastéttin stendur auðvitað saman og reynir að hrinda þessari árás almennings á sig. Fjölmiðlarnir (hugsanlega að DV frátöldu) eru síðan á mála hjá stjórnmálastéttinni og eiga tilveru sína undir henni, eða halda það. Bloggarar landsins eru flestir frjálsir og hafa sem heild talsverð áhrif.
Auðvitað finna þeir eins og aðrir sitthvað athugavert við stjórnarskrártillögurnar. Við öðru er ekki að búast. Samt er rétt að reyna að halda áfram með það samkomulag sem þar náðist, einkum vegna þess að mikilvægar endurbætur er að finna í tillögum ráðsins.
Mér finnst tillögur stjórnarskrárráðs einfaldlega svo merkar að ástæða sé til að samþykkja þær eins og þær eru. Hvað alþingi síðan gerir er mér alveg sama um. Býst fastlega við að það reyni í næstu þingkosningum að verja sig, en hvernig það verður gert er alls ekki hægt að sjá núna.
Lýður Árnason segir i grein um stjórnarskrármálið:
Viðhorf Þorsteins endurspegla þá hugmyndafræði að átakamiðja nýrrar stjórnarskrár sé innan þings en ekki utan. Um nákvæmlega þetta atriði hefur aldrei náðst samkomulag við Sjálfstæðisflokkinn og gott að halda því til haga.
Ef einhver stjórnmálaflokkur mun berjast með oddi og egg gegn öllum tillögum stjórnlagaráðs þá er það sjálfstæðisflokkurinn. Óþarfi er samt að láta það hafa sterk áhrif á sig. Í þjóðaratkvæðagreiðslu mun hugur þjóðarinna í þessu máli væntanlega koma fram. Þeir sem meðmæltir eru þessum hugmyndum munu áreiðanlega láta til sín heyra.
Líst fremur illa á að stofnaður verði sérstakur stjórnlagaráðsflokkur. Hugsanlega eyðileggur hann með öllu gott starf ráðsins. Það er vel hugsanlegt að í næstu þingkosningum verði til nýtt stjórnmálaafl. En verði það leitt af stjórnlagaráðsmönnum (og konum) gæti það borið í sér dauða þeirra tillagna sem nú eru á borðinu. Kannski er Þórhildur bara að viðra sínar eigin skoðanir. Vonum það.
Skil ekkert í jarðgangna-Möller að láta svona. Sýnist hann vera á útleið úr samfylkingunni. Fyrst hélt ég að hann hefði sætt sig sæmilega við að vera sviptur ráðherratigninni en það virðist ekki vera. Hann er sífellt að spila einleik í samgöngumálum, en vel getur verið að sá góðvilji sem hann fær sums staðar út á það, gagnist honum ekki.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.