1436 - Ný stjórnarskrá

8aGamla myndin.
Þetta er greinilega Bifrastarmynd og mér sýnist að þarna séu þeir Már Hallgrímsson, Magnús Haraldsson og Birgir Marínósson.

Eigum við að afhenda Styrmi Gunnarssyni og Jóni Baldvini Hannibalssyni stjórnartaumana. Af öllum þeim afdönkuðu stjórnmálamönnum sem er að finna út um allar koppagrundir hafa þeir hæst þessa dagana. Þeir eru að vísu ekki alveg sammála en þó eflaust sammála um það að engir standi þeim framar.

Mér finnst við eiga betra skilið en að hefja útbrunna og úr sér gengna pólitíkusa aftur til valda. Líst ólíkt betur á stjórnlagaráðið og þá sem þar sitja. Þeim tókst að verða sammála og það er ekki svo lítið afrek. Að því var stefnt frá upphafi, en það er ekkert misheppnaðra fyrir það.

Auðvitað er með öllu ómögulegt að fallast á allt sem þetta stjórnlagaráð leggur til, en þó held ég að skárra verði að fallast á þeirra tillögur en að sitja uppi með óbreytt alþingi og fjórflokkinn til eilífðarnóns.

En er bara um þetta tvennt að ræða. Ég held því miður að svo sé. Auðvitað breytist ekki allt í einu kasti við það eitt að fá nýja stjórnarskrá, en með henni má hugsanlega hefja svolitla tiltekt í þjóðmálum og losna við verstu spillinguna.

Ef tillögur ráðsins fara óbreyttar í þjóðaratkvæði eins og ýmislegt bendir til, er aðeins um það að ræða að fella frumvarpið eða samþykkja það. Ef það verður fellt er gamla stjórnarskráin áfram í gildi. Hún er alls ekki vonlaus og hefur dugað okkur alllengi. Gallar hennar eru samt margir og augljósir. Aðalgallinn er sá að túlkun hennar í dag veldur ofurvaldi fjórflokksins. Við því þarf að bregðast og nýja stjórnarskráin er besta tækið til þess. Ef hún veldur því ekki er hún handónýt.

Samkvæmt nýju stjórnarskránni verður jafnvel hægt að ræða aðild að ESB án þess að farast úr þjóðrembu. Ég hef ekki heyrt í neinum sem ekki vill að þjóðin ráði því hvort gengið er í ESB eða ekki. Þeir sem halda því fram að með því séum við að glata sjálfstæði okkar hafa galað hátt mjög lengi. Sennilega fara þeir að verða hásir og þá er jafnvel hægt að fara að ræða um aðild æsingalaust. Það hafa sumar þjóðir gert.

Nú er ágúst byrjaður og bráðum líður að hausti. Mér finnst þetta sumar vera búið að vera ágætt þó sumir telji það hafa verið kalt. Hápunktur þess hvað mig snertir er ferðin til Siglufjarðar. Að gista þar í tjaldi og hlusta á mávagargið og mótorskellina um nóttina er einstakt. Ekki er hægt að líkja því við annað. Það situr í sálinni og fer ekki neitt.

Frést hefur af útihátíðum víða um land. Af einhverjum ástæðum vill Ríkisútvarpið - sjónvarp fræða okkur sem best um hvernig umferðin gangi fyrir sig til Vestmannaeyja. Þó hefur frést af útihátíðum víða annarsstaðar. Ekki veit ég hvað ríkisútvarpið fær greitt fyrir þessa takmörkuðu upplýsingaþjónustu en það hlýtur að vera töluvert. Einkum vegna þess að hægt er spara mjög í annarri þjónustu en Vestmannaeyjaþjónustunni enda er það svikalaust gert. Best væri auðvitað að leggja af alla fréttaþjónustu um verslunarmannhelgina.

Að dómi ESB-andstæðinga er sá helsti galli á gjöf Njarðar varðandi stjórnarskrárdrögin að mögulegt er að greiða atkvæði um aðild oftar en einu sinni. Svo er að sjá að þeir hafi ekki mikla trú á að þjóðníðingatalið endist lengi. Mér finnst við vera búnin að bíða ansi lengi eftir hugsanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild.

IMG 6234Viti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband