1410 - Grikkland, SETI o.fl.

Untitled Scanned 01Gamla myndin.
Þessi mynd er ofan af Reykjum. Ætli gróðurhúsin séu ekki nr. 4 og 5 og svo er náttúrulega Núllið þarna.

Held að Grikkland sé á sömu leið og Ísland. Ekkert mun breytast. Þeir sem áður réðu öllu munu halda því áfram. E.t.v. munu þeir fara ögn varlegar. Þetta er bara það líf sem við erum búin að kjósa okkur. Hinn möguleikinn er einfaldlega ekki fær. Stjórnleysi og allskonar vandræði. Menn virðast sammála um að sumt sé ómögulegt en þegar á hólminn er komið eru menn alls ekki sammála um hvernig beri að leysa vandann. Ekki einu sinni um hver vandinn sé.

Einhvers konar stjórnskipan verðum við að hafa. Ef Grikkir geta það ekki er engin von til að við getum án hennar verið. Það sannaðist endanlega árið 1262 þegar þjóðveldið leið undir lok. Því skipulagi er ekki hægt að koma á aftur. Kannski réði „litli maðurinn“ ekkert meiru þá. Þrælahald lagðist að vísu af. (Að nafninu til.) Er samt enn við lýði. Breytist bara, en peningarnir ráða.

Hættum þessu voli og förum að vinna. Við verðum einfaldlega að sætta okkur við að peningarnir ráði. Reynum bara að græða svolítið meira og fésbókast sem allra mest. Það tekur hvort sem er enginn mark á þessu tuði. Hugsanlega eru tuðararnir ekki einu sinni í meirihluta ef grannt er skoðað. Kemur í ljós í næstu kosningum.

Annars er ég orðinn leiður á að leysa heimsmálin. Ætti kannski að snúa mér að einhverju sem ég ræð betur við.

Hvað er orðið af SETI-verkefninu? (Seti@home minnir mig að það hafi verið kallað.) Það hefur lítið heyrst um það að undanförnu. Fyrir þá sem ekki muna eftir því, þá snerist það um að nýta allt það afl sem ónotað er í einkatölvum heimsins til að kanna hvort útvarpsmerki væru að berast til okkar frá viti bornum verum annars staðar í alheiminum án þess að við vissum af því. Hef auðvitað prófað að gúgla nafnið en hrekk alltaf í burtu þegar ég á að fara að borga árgjald í einhverju.

Trúi því varla að spurningin um viti bornar verur annarsstaðar í alheiminum sé ekki áhugamál margra. Fréttir um þetta eru sjaldgæfar núorðið og þar að auki les ég ekki fréttir. Þar er alltaf verið að segja það sama. Ef ekki er einhver mikilvæg persóna að drepast þá er allt að fara til fjandans einhversstaðar í heiminum. Mér er alveg sama. Óþarfi að leita þennan andskota uppi. Hann kemur til manns einhvern vegin.

Egill frændi er búinn að vera að ferðast um Afríku undanfarna mánuði. Á hjóli held ég. Sá eitthvað minnst á hann á Pressunni um daginn. Held að hann hafi lítið sem ekkert skrifað á Moggabloggið sitt lengi. Enda er það sjálfsagt umhendis. Ætli hann sé ekki einkum að forðast fréttir. Eitthvað var rætt um það í fyrirsögninni á Pressunni.

Sá á Sögu-vefnum (utvarpsaga.is) nafnið á barnaperranum í Vestmannaeyjum (ef einhverjir hafa áhuga) og líklega einhvers staðar annarsstaðar að Haukur Hólm væri hættur á Sögu. Í mínum huga eru þeir alltaf spyrtir saman Haukur Hólm og Róbert Marshall síðan þeir voru báðir að vinna á fréttastofu Stöðvar 2 og létu mikið að sér kveða á innanhússpóstinum þar.

Þegar Eve Online verður ókeypis þá getur verið að ég kíki á hann. Þangað til fær hann að vera í friði fyrir mér. Sá einhversstaðr að World of Warcraft væri orðinn ókeypis að hluta. Á sínum tíma spilaði ég stundum VGA-planets og þótti gaman að. Þar var þáttakendafjöldi takmarkaður við ellefu og stjórnaði hver sínum kynflokki og þeir höfðu allir mismunandi eiginleika. En hversvegna að vera í þykjustuleik þegar alvaran er alveg eins skemmtileg?

IMG 5901Furustönglar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband