14.6.2011 | 00:05
1391 - Teitsmálið og ýmislegt annað
Nú er svo komið að ég er orðinn uppiskroppa með gamlar myndir. Mest stafar það auðvitað af skönnunarleti. Ég er því að hugsa um að endurnýta einhverjar gamlar myndir. Sú fyrsta er af pabba og Gunnari Vigfússyni. Ekki veit ég hvaða hús þetta er sem þeir standa uppvið og augljóst er að ekki hef ég tekið þessa mynd.
Skrifaði svolítið um Teitsmálið um daginn. Skil eiginlega ekkert í Gunnlaugi að vera að stuðla að því að Kögunarmálið allt verði rifjað upp. Ekki svo að skilja að ég haldi að spilling á Íslandi hafi hafist með því. Sennilega er orðið of seint fyrir hann að draga kæruna til baka. Teitur Atlason lætur ekki labba yfir sig á þann hátt sem Gunnlaugur virðist hafa haldið. Lesið bloggið hans Teits. Það borgar sig. http://www.dv.is/blogg/eimreidin/
Sagði í gær, að mig minnir, að ríkidæmið og hefðirnar hefðu mestu völdin. Þetta á ekki sérlega við um Ísland heldur er þetta alþjóðlegt fyrirbæri. Það er ekki nóg með að peningar séu afl þeirra hluta sem gera skal. Heldur virðast þeir sem peningunum ráða jafnan hafa lag á að koma öllu þannig fyrir að völdin fylgi peningunum. Þegar allt fer svo til andskotans eins og núna þá hanga völdin samt við peningana og þeir sem gráðugastir eru hafa vinninginn.
Tilraunir til að láta önnur gildi ráða en peningana hafa yfirleitt mistekist. Völd vestrænna þjóða voru í upphafi einkum grundvölluð á því að tækni þeirra við að drepa fólk var betri og meiri en annarra. Þeim er nú viðhaldið með peningum og ekki drepið fleira fólk en nauðsynlegt er. Ekki er samt víst að þetta sé rétta uppskriftin að þúsundáraríkinu. Það getur verið að ný uppskrift komi fram og sú Bandaríska reynist röng.
Predikun af þessu tagi getur því aðeins haft áhrif að hún sé öllum auðskiljanleg. Vandi þeirra sem um fjármál skrifa er venjulega sá að þeir eru illskiljanlegir. Populismi er þetta að sjálfsögðu og réttast er að viðurkenna það. Veit ekki hvaðan mér kemur sú vissa að eitthvað sé að marka það sem ég skrifa, en hún er fyrir hendi.
Það þýðir ekki annað en að gera ráð fyrir að maður sjálfur sé gáfaðri og betur gerður en flestir aðrir. Mikilmennskubrjálæði er betra en minnimáttarkennd. Reiðin étur menn hinsvegar upp að innan. Kannski er réttláta reiðin verst. Það er ekki hægt að losna við hana. Ég skil ekki af hverju fólk talar um annað en hinstu rök tilverunnar. Það tekur varla að eyða orðum að öðru.
Í Guantanamo á Kúbu hafa Bandaríkjamenn getað hagað sér eins og þeim sýnist. Ótruflaðir af öllum. Vissulega finnast þeir sem verri eru. Það réttlætir samt ekki það sem þeir eru að gera. Þegar Obama var kosinn forseti árið 2008 lofaði hann að sjá til þess að fangabúðunum í Guantanamo yrði lokað innan árs. Það hefur ekki gengið eftir. Eflaust er hægt að afsaka það á ýmsan hátt.
Við ætlumst samt til þess að Bandaríkjamenn standi við það sem þeir segja. Gangi á undan með góðu fordæmi. Þeir vilja það. Langflestir. Það er ekki nóg að vera aðeins betri en einhver annar. Það þarf að vera langbestur.
Um þessar mundir er ég að lesa bókina um Steinólf í Ytri-Fagradal. Sú bók var gefin út árið 2003 og er eftir Finnboga Hermannsson. Er nýbyrjaður á bókinni og finnst athyglisverðast það sem sagt er um Stein Steinarr og Stefán frá Hvítadal í bókinni. Einnig frásögnin um Þjófinn úr Paradís sem flutti út í Akureyjar eftir að Heinabergsmenn ráðlögðu honum það á Letigarðinum. Ég þarf einhverntíma að lesa bókina um þjófinn í Paradís sem Indriða G. var meinað að lesa í útvarpið eins og frægt varð. Indriði var sérstakur mjög. Setti afruglarann að Stöð 2 upp fyrir hann þegar hann bjó í næsta húsi við mig í Hveragerði. Það var nú þá.
Ekki veit ég hvernig á því stendur að lesendum mínum virðist vera að fjölga. Mér finnst ekki að ég skrifi neitt öðruvísi en ég er vanur. Moggabloggarar sem skrifa uppá hvern einasta dag eru kannski ekki mjög margir. Ég upplifi mig samt ekki sem síðasta geirfuglinn. Apropos Geir..... Nei, nú fer ég að hætta.
Það er vel hægt að geyma peningana í óþarfa steinsteypu, malbiki og þess háttar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.