11.6.2011 | 00:26
1388 - Eiríkur Bergmann
Veit því miður afskaplega lítið um þessa mynd. Þekki ekki einu sinni húsin á myndinni.
Enn einu sinni er kominn föstudagur. Skilst að næsta vika verði stutt hjá þeim sem vinna í samræmi við dagatalið. Sumarið er vonandi loksins að koma.
Það hefur reynst mér vel undanfarið uppá bloggvinsældir til að gera að hafa nöfn á fólki í fyrirsögnum. Kannski ég haldi því bara áfram. En hvaða nafn ætti ég að nota núna? Sjáum til. Mér leggst áreiðanlega eitthvað til.
Í fréttatímanum í dag skrifar Jón Baldvin Hannibalsson einskonar ritdóm um bók Eiríks Bergmann sem nefnd er: Sjálfstæð þjóð Trylltur skríll og landráðalýður Ekki liggur JBH gott orð til Ólafs Ragnars Grímssonar foseta Íslands sem hann kallar forsöngvara útrásarinnar, eða var það Eiríkur sem gerði það?
ÓRG hefur verið kallaður verri ónefnum en þetta. Sjálfur minnist ég Pocahontas-ræðu hans í hvert sinn sem ég sé hann bendlaðan við útrásina. Hann lagði það semsagt til að Íslendingar gerðu teiknimynd um Snorra Þorfinnsson sem væri miklu merkilegri fyrir sögu Bandaríkjanna en stelpuræksnið sem kölluð var Pocahontas. Myndin um hana var einmitt afar vinsæl á þessum tíma. ÓRG hefur nú skipt um áherslur og stefnir eflaust að einu endurkjöri enn.
Jæja, þá eru Jóhanna og þau búin að setja tappann í flöskuna og hægt að snúa sér af fullum krafti að Geir greyinu. Víst er það nokkuð sögulegt að nú skuli maður úr forréttindastétt landsins dreginn fyrir landsdóm og ákærður um óljósar sakir. Viðhöfnin er mikil og menn finna til ábyrgðar sinnar gagnvart sögunni. Sama er um stjórnlagaráðið að segja. Þar er verið að feta sig eftir slóð sem er alveg ný.
Það er engin furða þó menn hafi sterkar skoðanir á því sem er að gerast á Íslandi þessa dagana. Það er eins og allt sé nýtt. Endurfæðing alls eftir Hrunið mikla haustið 2008 er engu lík. Íslendingar finna meira til smæðar sinnar og óöryggis en oftast áður. Þegar lýðveldið var stofnað á Þingvöllum árið 1944 trúðu menn því í einlægni að við stæðum flestum þjóðum framar um næstum allt. Sú er ekki raunin núna. Við berumst með straumum alþjóðahyggjunnar. Erum jafnvel flækt í alþjóðasamtök sem líta á það sem sitt helsta hlutverk að drepa þá sem dreymir um annað skipulag.
Eiginlega vil ég ekki að hátíðleikinn drjúpi svona af því sem ég skrifa en get bara ekki að því gert. Kaldhæðnin er miklu skemmtilegri svo ég tali nú ekki um fýluna. En hverjum gagnast fúllyndið? Ekki þeim sem skrifar og ekki þeim sem les. Brandarar eru flestir afgamlir og úr sér gengnir þó alltaf finnist einhverjir sem kunna að meta þá. Svo er ég enginn baggalútur.
Mér er sama hvað hver segir en uppfrá þessu mun ég alltaf lesa bloggið hans Teits Atlasonar. Urlið er svona ef einhverjir vilja vita það: http://www.dv.is/blogg/eimreidin/ Ég skrifaði eitthvað um málssókn Gunnlaugs Sigmundssonar um daginn og minnir að ég hafi verið heldur stuttaralegur út í Teit. Gunnlaugur og Framsóknarflokkurinn koma samt áreiðanlega til með að tapa mest á þessu máli PR-lega séð. Ekki fer hjá því að Kögunarmálið allt verði rifjað upp víða. Það mál er einfaldlega þannig vaxið að Gunnlaugur hlýtur að tapa á því. Man vel að ég hneykslaðist mikið á því á sínum tíma.
Samkvæmt því sem sagt var í kvöld í Kastljósi geta gagnaflutningar til landsins verið mun ódýrari en nú er. Þetta mál allt er nokkuð flókið og líklega er rétt að bíða nákvæmra frétta af því. Erlendis tíðkast það ekki að takmörk séu á því gagnamagni sem flytja má fyrir ákveðin verð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.