1333 - Trúmál og fleira

hopurGamla myndin
er greinilega tekin við gamla skátaskálann innst í Reykjadal (við kölluðum þennan stað aldrei Klambragil í gamla daga. Það nafn sáum við einhvern tíma seinna á korti minnir mig.) Skálinn fauk í ofsaveðri einhvern tíma en þessi mynd er líklega tekin í apríl 1959. Myndin er ansi óskýr en mér sýnist að eftirfarandi séu á henni:  Sigurður Þorsteinsson (Siggi Þorsteins á Ljósalandi), Árni Helgason, Már Michelsen, Vignir Bjarnason, Atli Stefánsson, Jóhann Ragnarsson og Ingvar Christiansen. Fyrstu fjögur nöfnin eru ágiskun hjá mér (sérstaklega þau númer þrjú og fjögur) en ég er alveg viss um að þrjú þau síðustu eru rétt.

Nú eru gömlu myndirnar búnar að ná slíkum tökum á mér að ég er að hugsa um að blogga um mynd sem ég sá einu sinni að mig minnir hjá Kollu í Álfafelli. Hún var úr skólaferðalagi sem farið var á þessum árum eða eitthvað fyrr og tekin í tómri sundlaug við skóla í Lundarreykjadalnum (Já, við fórum Uxahryggi og síðan eitthvað víðar um Borgarfjörðinn.) Á þessari mynd voru ofan í sundlauginni ég, Jósef Skaftason og Erla Traustadóttir. Aftan á hana hafði verið skrifað eftirfarandi: Jobbi gáfaði, Erla sæta og Sæmi sniðugi.

Svanur Sigurbjörnsson moggabloggari með ýmsu fleiru skrifar nýlega á moggabloggið ágæta grein um trúmál og vil ég hérmeð hvetja alla til að lesa þá grein. Mér kom þetta í hug núna því um síðustu helgi sótti ég tvær fermingarveislur. Í öðru tilfellinu hafði viðkomandi fermingarbarn hlotið svokallaða borgaralega fermingu. Mér finnst rangt að vera að neyða börn á þessum aldri til að taka afstöðu í trúarefnum. Eiginlega er verið að múta þeim með fermingargjöfum og þess háttar. Svipað er svosem um fullorðið fólk að segja. Því finnst oft hampaminnst og einfaldast að látast trúa á þá vitleysu sem t.d. trúarjátningin er.

Félagið Siðmennt reynir að berjast á móti þessu og margt er gott um þann félagsskap að segja. Þeir sem tvístígandi eru í trúarefnum hefðu gott af að skoða vefsetur þeirra. Fáránlegast finnst mér þegar verið er að reyna að gera trúmál pólitísk. Þau eru það ekki. Sumir reyna að tengja pólitíska flokka við gáfnafar. Það er álíka fjarstæða. Fjölyrði ekki meira um þetta núna en reyni kannski að gera það seinna.

Því miður virðist spádómur minn um að Líbýu-stríðið komi til með að dragast á langinn ætla að rætast. Nú er þátttakan í því orðin að pólitísku bitbeini og þá er ekki von á góðu. Það er hart að á okkar tímum skuli fólk þurfa að láta lífið fyrir fáfengileika annarra og misskilda stórmennskudrauma.

IMG 5145Svona enda göngustígar oft. Jú, hugsunin er sú að allir fari gangandi í strætó, en hvað með þá sem nota göngustígana bara til að ganga á?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband