1314 - Icesave og leikfimi

Sé ekki að Bjarni Benediktsson slái sér upp á því að tala um Líbýu. Aðkoma Íslands að því sem þar gerist er ekki á neinn hátt lík aðkomu Íslands að Íraksstríðinu. Í fyrsta lagi er það í gegnum Nato en ekki þjónkun við Bandaríkin. Í öðru lagi er það einnig í samræmi við samþykkt Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna og í þriðja lagi eru Íslendingar bara örþjóð og ráða engu um alþjóðastjórnmál. 

Nei, ég held að Bjarna væri nær að einbeita sér að Icesave. Á margan hátt er hann búinn að koma sér í þá stöðu að hann tapar manna mest á nei-i. Bjarni segir samt heldur fátt þessa dagana um málið.

Hlusta stundum á Útvarp Sögu. Einkum á Pétur Gunnlaugsson. Hann er vel að sér um marga hluti. Mjög áheyrilegur þó hann sé með mikla Glistrup komplexa og telji sjálfum sér trú um að Útvarp Saga sé mjög áhrifamikil. Verst að það skuli næstum alltaf vera þeir sömu sem hringja í hann og sumir þeirra eru hálfleiðinlegir. Reyndar hefur Útvarpi Sögu farið fram að undanförnu og eflaust hlusta margir frekar á hana en tónlistarsíbyljuna.

Stjórnlagaráðið virðist ætla að fara vel af stað. Að ekki skuli fleiri hafa gengið úr skaftinu er til bóta. Vonandi tekst þeim að koma með eitthvað bitastætt.

Pólitísku þrefi lokið.

Las í gær frásögn Hörpu Hreinsdóttur um leikfimikennslu á Laugarvatni. Upplifum mín af leikfimikennslu þónokkru fyrr (líklega 1953 - 1957) var á margan hátt svipuð. Þó var Hjörtur leikfimikennari skemmtilegur og kenndi ýmislegt annað en leikfimi og sund og fórst það vel úr hendi. Leikfimitímarnir voru samt næstum eintóm þjáning.

Ef okkur gekk vel að komast í gegnum æfingarnar fengum við stundum að fara í leiki síðari hluta tímans. Aðallega höfðingjaleik svokallaðan sem mér skilst að sé líkur því sem kallað er brennó núna.

Smíðin var líka óttalega leiðinleg. Mest vegna þess að ég koma aldrei neinu í verk. Benedikt Elvar kenndi a.m.k. einn vetur. Hann var dálítið drykkfelldur minnir mig. Einhvertíma bundu strákarnir hann víst við hefilbekkinn. Annars var talsvert af vélum í smíðasalnum, sem reyndar var beint undir leikfimisalnum og jafnstór.  Þann vetur sem Benedikt Elvar var notaði ég aðallega til að saga út hjól sem við (Ásgeir Jónsson og fleiri) notuðum á bílana okkar.

Þó mér leiddist í leikfimi og væri lélegur þar var sundið miklu betra. Eiginlega bara alveg ágætt. Enda var ég þar með þeim bestu. Kunni vel að synda og þurfti lítið sem ekkert að fara í gegnum allar þessar heimskulegu æfingar með sundtökin. Man ekki eftir að hafa verið kennt neitt að taka þau. Buslaði bara einhvern vegin og mest í kafi til að byrja með, en komst fljótlega uppá lag með að láta mig fljóta við yfirborðið. Gat samt vel synt í kafi ef því var að skipta.

IMG 5031Hér er sérstakur útbúnaður fyrir þá sem vilja kasta sér í sjóinn. Eins og sjá má er búið að fjarlægja björgunarhringinn. Lokað á kvöldin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband