1302 - Vandræðafyrirsögn

Nú er Reykjavíkurskákmótinu lokið. Þó Bjarni hafi staðið sig vel um miðbik mótsins eins og ég minntist á um daginn þá seig á ógæfuhliðina hjá honum eftir það. Fjórum síðustu skákunum tapaði hann og fékk jafnan mjög stigaháa andstæðinga. Nú er bara að bíta í skjaldarrendurnar og gera betur næst. 

Alveg er furðulegt hve rólegir Japanir eru þó þeir eigi við miklar hörmungar að stríða. Þar er ekki æsingnum fyrir að fara. Ekki er einu sinni víst að hörmungum þeirra sé nærri lokið. Fyrir einn eru þessar hörmungar samt með afbrigðum ánægjulegar. Sá er Gaddafi Líbíuleiðtogi. Nú hefur kastljós heimsins nefnilega beinst frá honum. Ekki er samt víst að hann sé þar með búinn að bíta úr nálinni. Láti Vesturveldin verða af flugbanni getur orðið erfitt fyrir hann að halda völdum í svo víðlendu ríki.

Þegar Kristján konungur tíundi stóð á Kambabrún og horfði á allar sveitir Suðurlandsins austur að Eyjafjallajökli varð honum að orði: „Á ég svona víðlent ríki? Ekki grunaði mig það."

Nú er talsvert farið að birta um sjöleytið og enginn vafi á því að vorið er að nálgast þrátt fyrir snjóinn sem yfir öllu er. Snjórinn hér í Reykjavík er mun meiri en verið hefur undanfarin ár. Hálfkuldalegt að horfa útum gluggann. Jafnvel skýin eru þungbúin og líður illa.

Mér finnst umræðan um aðildina að ESB vera komin út í vitleysu þegar ein aðalástæðan fyrir því að ekki skuli ganga í þau samtök er sögð vera sú að þar sé maturinn svo vondur og misheppnaður.

Mestu bloggvandræði mín eru oft að finna fyrirsögn. Það geri ég yfirleitt síðast af öllu og stundum er hún alveg misheppnuð. Stundum tekst mér þó bærilega upp. Verst (eða best) er að bloggin mín fjalla næstum alltaf um hitt og þetta og fyrirsögnin blasir ekkert endilega við. Þó veit ég eða þykist vita að sumir lesi blogg með tilliti til fyrirsagna. Á blogg-gáttinni sést t.d. ekkert nema fyrirsögnin. Ég hef alltaf númer á mínum bloggum svo ég hef kannski forskot á suma að því leyti.

IMG 4922Kræklótt tré. (Askur Yggdrasils??)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Heiður og orðstýr Japans er í veði, ég veit að þetta verkefni er lífshættulegt.. við getum bara sagt :takk.

Þetta sagði japanski frosetinn við japönsku slökkviliðsmennina sem fóru sem sjálfboðaliðar til Fukushima vitandi það að þeir kæmu vart heilir frá þessu ævintýri.. ótrúlegt fólk japanir.

Óskar Þorkelsson, 18.3.2011 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband