1291 - Langt mál um lítið efni, en vonandi ekki of langt

Af hverju er fólk að leggja sig niður við það stórhópum saman að lesa bloggið mitt og hvers vegna er ég að rembast við að skrifa þessi ósköp. Svörin eru fjarri því að vera einhlít en ég vildi að ég vissi þau nákvæmlega í öllum tilvikum. Þó ég hafi gaman af að skrifa þá skrifa ég alls ekki um hvað sem er. Leyndustu hugsanir mínar skrifa ég t.d. allsekki um. 

Hversvegna ekki? Væri það ekki í rauninni betra? Jú kannski, en þá væri ég ekki í bílstjórasætinu. Mér finnst nefnilega að ég sé að vefja lesendum mínum um fingur mér með því að fá þá til að lesa það sem ég skrifa. Eiginlega er ég að veiða þá. Helst þarf ég samt að gera það á þann hátt að þeim finnist þeir ekki hafa verið snuðaðir. Það er listin. Gera þetta án þess að þeim finnist þeir vera snuðaðir. Er ég þá að snuða þá? Kannski.

Þetta eru ískyggilegar vangaveltur. Kannski snúast þær samt um kjarna málsins. Mér verður að finnast ég standa lesendum mínum framar í einhverju. A.m.k. í því að skrifa um allan fjárann. Æfingin skapar meistarann. Kannski er ég orðinn meistari í að skrifa langt mál um ekki neitt. En nú er best að hætta þessu enda er svefntaflan farin að virka.

Gæti ég skifað bók sem yrði lesin? Sennilega ekki. Ég er of óþolinmóður til þess. Kommentin eru mitt konfekt. Og það er gaman að svara þeim. Ekki síst þeim neikvæðu. Þá get ég þóst vera voða gáfaður. Oftast er það nú samt með aðstoð Gúgla frænda. Hann er ómetanlegur nú til dags og auðvelt að þykjast vera gáfaðri en maður er með aðstoð hans. Sum kommment eru samt þannig að best er að svara þeim ekki. Sumir svara öllum kommentum, sumir engum. Sumir skrifa sín kommnet sjálfir. Kommentalaus blogg eru eins og ræður eða predikanir eða gluggalaus hús.

Mér finnst að ekki megi fjarlæga komment sem búið er að skrifa og senda. Þau eru hluti af viðkomandi bloggi og einnig af þeim athugsemdum sem á eftir koma með tilvísanir í kommentið, beinar eða óbeinar. Eiginlega er það eyðilegging á bloggi að gera slíkt. Ef þeir sem blogga eru skikkaðir til að bera ábyrgð á öllum athugasemdum sem við þau koma hlýtur að þurfa að spyrja þá hvort eyða megi þeim.

Var að horfa á silfur Egils. Mér finnst vinstri menn á margan hátt hafa komið sér vel fyrir með því að hafa hann. Enda hata hægri menn Egil Helga mikið en ráða greinilega ekki við hann. Kannski Binga takist þó að reka hann frá eyjunni í fyllingu tímans. Er þó ekki viss um að takist að koma honum frá sjónvarpinu. Til þess gæti þurft kosningar.

Á mbl.is er skýrt frá því að lítilsháttar bílvelta hafi orðið í Borgarfirði. Þetta finnst mér einkennilegt orðalag og minnir mig á manninn sem sagðist hafa rotað annan bara pínulítið.

IMG 4751Himinn og haf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband