1283 - Skák og mát

Þjóðfundurinn 1851 er frægur í sögunni. Til hans var stofnað á svipaðan hátt og stjórnlagaþingsins nú. Vel getur verið að í framtíðinni verði stjórnlagaráð það sem saman kemur innan skamms frægt að öðru en endemum. Víst er að mikið er búið að ráðslaga fram og aftur um stjórnarskrá fyrir landið þó Alþingi hafi ekki getað lokið því máli. Kannski getur stjórnlagaráðið gert það og hugsanlega verða allir kátir að lokum.

Mestur hluti þess sem eftir er af þessu bloggi er afar vísindalegt enda fjallar það eingöngu um skák. Ég geri ráð fyrir að nánast allir kunni mannganginn svo ég er ekkert að þreyta mig á útskýringum á honum. Þegar ég var að læra að tefla voru það einkum tvö atriði sem erfiðleikum ollu. Það voru framhjáhlaupið og hrókunin, einkum langhrókun. Segja má að það þriðja sem snertir mannganginn séu undantekningarnar frá 50 leikja reglunni. Ég hef aldrei skilið þær og samt komist ágætlega af. Með öðrum orðum. Þær eru svo sjaldgæfar að það er óhætt að gleyma þeim.

Uppröðunin getur vissulega vafist fyrir sumum en þar eru það afar fáar og skýrar reglur sem ráða. Allir þekkja taflmennina og vita hvernig raðað er upp. Tvennt þarf þó að hafa í huga. Annars vegar er það hvernig taflborðið á að snúa og svo hvernig hjónunum tignu skuli komið fyrir.

Tvær örstuttar setningar ráða fram úr þessu. „Hvítur reitur í hægra horni" er önnur en hin er „Drottningar ráða reitum". Sú fyrri er auðskilin og fjallar um hvernig borðið á að snúa. Þá seinni ber að skilja þannig að drottningunum skuli komið fyrir á reitum samlitum þeim. Ekki meira um uppröðunina. Hún ætti nú að vera öllum ljós.

Framhjáhlaupið er eitt það skemmtilegasta í skákinni. Fyrst þegar ég var að læra að tefla kom sér oft vel að kunna skil á því. Öðrum kom það stundum mjög á óvart og svo var það lengi vel fyrir hendi að menn gleymdu þeim möguleika með öllu. Í sem stystu máli er framhjáhlaupið þannig að þegar peði er leikið fram um tvo reiti og lendir við það við hliðina á óvinapeði má drepa það eins og því hefði aðeins verið leikið fram um einn reit. Þetta verður þó að gera strax í næsta leik annars fellur rétturinn niður.

Hrókun fer þannig fram að fyrst er kónginum leikið til hliðar um tvo reiti og síðan er hróknum lyft yfir kónginn og hafður við hlið hans. Nokkur atriði þurfa að vera á hreinu. Hvorki kóngnum né hróknum má hafa verðið leikið fyrr í skákinni. Ekki má hróka yfir menn. Hvorki reiturinn sem kóngurinn fer af, yfir eða lendir á má liggja undir árás fjandmanns. Þetta þýðir t.d. að ekki má hróka úr skák.

Nú er rafmagnslaust hér í hluta af Auðbrekkunni og hluta af Nýbýlaveginum en ekki annars staðar sýnist mér. Vasaljós er innan seilingar og sprittkerti finnanleg. Ferðatölvan þessi hefur battery sem væntanlega endist í svona rúman klukkutíma. Samt er það nú ansi fátt sem maður getur gert. Getur ekki einu sinni fengið sér kaffisopa.

IMG 4634Sjóræningjaskipið „Jolly Roger".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband