1239 - Krakkarnir hennar Öllumöggu

Um miðja síðustu öld sást almyrkvi á sólu syðst á Íslandi. Í tilefni af því fengu einhverjir sér lítilsháttar í tána. Þá varð góðtemplara einum að orði:

„Mér finnst nú helvíti hart að geta ekki verið ófullur einu sinni á 200 árum."

Ég man vel eftir þessum myrkva. Að vísu varð ekki almyrkvi í Hveragerði. Ég var að vinna uppá Elliheimili þegar þetta gerðist. Myrkvinn var í hádeginu og ég flýtti mér heim til að sjá hann í dökkri filmu og þorði ekki að horfa í áttina að sólinni á leiðinni heim því mér hafði verið sagt að það væri hættulegt.

Löngu seinna fylgdist ég með því í beinni útsendingu á Sky-sjónvarpsstöðinni bresku þegar almyrkvi varð einhvers staðar á Bretlandi. Niðamyrkur kom en stóð ekki lengi.

Þegar við áttum heima vesturfrá lékum við okkur oft við krakkana þeirra Árna og Öllumöggu. Skammt frá heimili þeirra var fyrrverandi sundlaug. Ósköp lítil og ómerkileg að flestra áliti en stórmerkileg samt í augum okkar krakkanna. Hún var að mestu leyti full af grjóti og þessháttar en í öðrum enda hennar var svolítið vatn. Það hafði örugglega verið þarna lengi og okkur datt ekki í hug að baða okkur þar. Kannski hefur okkur líka verið bannað það.

Á vatnsbotninum var samt líf því brunnklukkur voru þar á sveimi og þær voru mjög áhugaverðar að áliti okkar krakkanna. Þær voru á stærð við járnsmiði en gráleitar og stórhættulegar að sjálfsögðu. Öllu var þó óhætt meðan þær skriðu bara um á vatnsbotninum en þegar þær syntu upp að yfirborðinu var eins gott að vara sig.

Við höfðum nefnilega öll heyrt söguna um að þær gætu átt það til að fljúga upp í fólk og fara ofan í maga þess. Eina ráðið til að ráða niðurlögum þeirra þar var að éta átján jötunuxa. Jötunuxar voru með þeim ógeðslegustu pöddum sem við þekktum. Næstum ómögulegt var að drepa þá og svo gátu þeir átt það til að fljúga.

Þegar við sáum brunnklukkurnar synda í átt að yfirborðinu pössuðum við þessvegna að hafa munninn vel lokaðan. Þegar brunnklukkurnar nálguðust vatnsyfirborðið sneru þær sér við og ráku afturendann upp úr vatninu. Þá voru þær hvað hættulegastar. Ævinlega fóru þær samt niður í vatnið aftur og hættan leið hjá.

Hjá þessari sundlaug fann ég líka eitt sinn riffilskot. Það var sko ekki nein patróna en svoleiðis gyllt dýrmæti fundum við stöku sinnum. Nei, þetta var alveg heilt og fremst á því var gráleitur málmbútur næstum eins langur og patrónan sjálf. Þessi málmbútur var allur rifflaður og skrýtinn og fremst myndaði hann nokkurs konar odd. Man að ég hugsaði:

„Vá, þetta er líklega alvöru skot. Kannski það komi hvellur ef ég sprengi það."

Ekki er að orðlengja það að ég fann mér hæfilegan stein og setti skotið á sundlaugarbarminn. Krakkarnir hópuðust að mér og tóku sum fyrir eyrum þegar þau sáu hvað ég ætlaði að gera.

Nú, ég lamdi vitanlega á skotið með steininum og það kom hvellur. Hvert skotið fór eða hvort það fór eitthvert veit ég ekki en enginn slasaðist.

Íslenskir málshættir eru oft sérkennilegir og merkilegir. Einn kann ég sem er svona: „Snælega snuggir sögðu Finnar, áttu andra fala."

Þennan hef ég örugglega lært af bók einhverntíma og þótt merkilegur vegna torkennilegra orða. Ef ég ætti að þýða þetta á nútímamál yrði málshátturinn einhvern vegin svona: „Það lítur út fyrir snjókomu sögðu Finnar því þeir áttu skíði til sölu."

IMG 3706Minnismerki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband