1237 - Vei, nú fer daginn að lengja

Óánægða liðið í vinstri grænum er að reyna að sveigja stefnu ríkisstjórnarinnar til vinstri. Held ekki að um neina raunverulega uppreisn sé að ræða. Hún gæti samt komð þegar ESB umræðan kemst á alvarlegra sig. Það gerir hún hugsanlega áður en kjörtímabilinu lýkur. 

Man vel eftir mínum fyrsta stjörnufræðitíma. Þá var ég í barnaskóla og Helgi Geirsson skólastjóri var að kenna okkur landafræði eða eitthvað þessháttar. Snúningur jarðarinnar kringum sólu kom af einhverjum ástæðum til tals. Helgi tók þá hnattlíkan, sagði mér að standa upp og standa á miðju gólfinu. Sagði að ég væri sólin og gekk síðan umhverfis mig haldandi á hnattlíkaninu og sagði að jörðin gengi umhverfis sólu á sama hátt. Með þessu vaknaði svolítill skilningur hjá mér á gangi himintungla og ég hef alltaf búið að þessari grunnþekkingu síðan.

Um líkt leyti kenndi Þórður á Grund okkur smíði. Hann tók eitt sinn tvær fjalir sem ég var að burðast við að hefla til og sýndi honum, lagði þær hlið við hlið, kíkti á milli þeirra  og sagði: „Það má alveg sjá gang himintungla í gegnum þetta." Ég skildi strax að þetta var ekki nógu gott þó ég hefði aldrei fyrr heyrt talað um himintungl og þekkti ekki orðið.

Þetta með stjörnufræðina datt mér í hug vegna þess að nú er víst stystur dagur. Í gamla daga var sagt: „Þremur nóttum fyrir nóttina helgu...." Hugsið ykkur það. Nú fer daginn að lengja og skammdegið hopar. Eins gott að skilja sæmilega af hverju allt þetta stafar. Ísland er of norðarlega á hnettinum. Það þyrfti að vera sunnar. Líka er víst tunglmyrkvi í fyrramálið.

Talaði eitthvað um það í síðasta bloggi að hugsa upphátt. Það er einmitt eitt af því sem ég hef gert alla ævi. Man vel eftir kalli á Elliheimilinu sem talaði mikið við sjálfan sig. Þetta var þegar ég var krakki. Hann talaði svo mikið og hátt við sjálfan sig að hann heyrði lítið í öðrum og var ekkert að hafa fyrir því að lækka róminn þegar hann mætti fólki. Nú rökræða allir við símann sinn hvar sem er og þykir ekki tiltökumál.

Já, bloggið er bara þannig að þar er hægt að blanda öllu saman. Þar er hægt að gera margt sem ekki er gerlegt annars staðar. Á fésbókinni er tilgangslaust að predika yfir fólki og reyna að ná valdi yfir því með vönduðum skrifum. Fáir fara þangað nema rétt sem snöggvast. Hafa hana kannski í opnum glugga meðan þeir gera eitthvað annað.

Annars finnst mér stjórnmálaumræðan á blogginu ansi illvíg á köflum. Fer stundum út í kúk og piss og síðan jafnvel dauða og djöful. Reyni að hemja mig þó oft finnist manni ástæða til að vera stóryrtur. Fésbókin er betri í slíkt. Segi ég af því ég kann ekki almennilega á hana.

Nú er ég loksins búinn að átta mig á hvað er svona merkilegt við 7. janúar. Það er hvorki meira né minna en „The International Silly Walk Day".

Lesendur bloggsins mín í gær voru fleiri en vanalega. Það er tilfallandi og stafar líklega af því að ég fjallaði um mál sem er ofarlega á baugi og fyrirsögnin bar þess merki.

IMG 3783

Ljósið kemur langt og mjótt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband