1231 - Icesave og Ungverjaland

Icesave flækist nú fyrir mönnum sem aldrei fyrr. Út af þessu eilífðarmáli er fólk áhyggjufullt sem eðlilegt er. Fylgið hrynur af ríkisstjórninni en þó er ekki útlit fyrir stjórnarskipti. A.m.k. ekki strax sýnist mér. Eyjubloggarinn Páll Ásgeir Ásgeirsson segir m.a. á sínu bloggi:

„Það voru Ólafur Ragnar Grímsson grís og kampavínshreyfingin kennd við Indefence sem björguðu oss frá gúlaginu. Þetta er beiskur kaleikur en á honum verður að bergja og viðurkenna það sem rétt er.
Ég fæddist árið sem uppreisnin var gerð í Ungverjalandi. Ég hef kosið vinstri flokka í öllum kosningum sem ég hef haft rétt til að taka þátt í og stutt þeirra málstað og þeirra hugmyndir. Þetta er mitt Ungverjaland og hér lýkur minni samfylgd og mínum stuðningi."

Ég man vel eftir uppreisninni í Ungverjalandi. Þá var fyrirskipuð einnar mínútu þögn um hádegið einn daginn. Þegar að henni kom var kommúnistinn Gunnar Benediktsson að kenna okkur og hann virti þá fyrirskipun sem gefin var. Á eftir minntist hann reyndar á hvernig Bretar og Frakkar höguðu sér við enduropnun Súez-skurðarins en sú aðgerð stóð þá einnig yfir.

Fylgið við að ljúka þessu leiðinda Icesave-máli hefur aukist. En það er erfitt að taka ákvörðun og vel getur verið að áframhaldandi stuðningur við ríkisstjórnina í þessu máli sé rangur. Pál Ásgeir virði ég mikils og kannski hefur stuðningur minn hingað til við að greiða Icesave byggst einkum á tvennu. Ótta við málaferli og óvissu mikilli um úrslit þeirra og afleiðingar annars vegar og hins vegar áhrif Icesave málsins á stuðning við ESB aðild sem ég er fremur hlynntur en hitt miðað við fyrirliggjandi upplýsingar.

WikiLeaksmálið er lifandi enn þó reynt sé að þegja það í hel. Ef tilraunir Bandaríkjastjórnar til þeirrar þöggunar ná fram að ganga er framferði þeirra engu betra en Kínversku alræðisstjórnarinnar. Yfirgangur þeirra er með öllu óásættanlegur.

Hef verið að glugga í Austantórur eftir Jón Pálsson að undanförnu. Jón fæddist að Syðra-Seli í Stokkseyrarhreppi árið 1865 svo það er ekki víst að allir hafi áhuga á þeim bókum þó ég hafi hann. Bækurnar eru í raun þrjár og gefnar út um og fyrir miðja síðustu öld. Fróðlegar og athyglisverðar bækur. Sem dæmi má nefna að þarna eru næstum 100 blaðsíður eingöngu um veðurspár og veðurmerki (t.d. hornriða og fjallsperring).

Allt í einu er ég alveg búinn að missa áhugann á bréfskákunum mínum. Hvernig skyldi standa á því? Það var alls ekkert útaf því að ég stæði neitt verr í þeim svona yfirleitt. Nú er ég kominn í bullandi tímahrak í þeim flestum. Kannski lagast þetta með tímanum. Verði ég þá ekki búinn að tapa öllum skákunum. Sjáum til.

IMG 3377Skip í Reykjavíkurhöfn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband