1228 - Hvað með fésblogg?

Eflaust mætti fjölyrða lengi um WikiLeaks og stjórnlagaþingið. Um þau fyrirbrigði veit ég miklu meira en um Icesave og gæti talað lengi um mál sem þeim tengjast. En allir vilja tala um Icesave. Icesave þetta og Icesave hitt. Eru ekki allir búnir að fá uppí kok af þessu? Jú jú, þetta eru heilmiklir peningar og það hvernig með þetta allt er farið getur sem best haft áhrif á afkomu okkar til langrar framtíðar. Ég vil samt frekar brjóta heilann um eitthvað uppbyggilegra. Kaus í síðustu þingkosningum fólk sem endilega vildi sjá um þessi mál fyrir mig. Kaus reyndar vitlaust, en ekki þýðir að fást um það. Fæ vonandi síðar tækifæri til leiðréttingar.

Óskar Þorkelsson segir að bloggið sé leiðinlegra en fésbókin. Þetta er sjónarmið sem ég hef heyrt fyrr. Kannski er það rétt. Ég er samt haldinn þeirri barnalegu trú að bloggskrif séu eitthvað varanlegri en fésbókarskrif. Sennilega er það vitleysa. Ég er bara orðinn svo vanur blogginu og það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja.

Fésbókin er að því leyti verri en bloggið að hún hagar sér aldrei eins og maður heldur að hún eigi að gera. Aftur á móti er ég farinn að skilja bloggið ágætlega þó ég sé farinn að hasast upp á að lesa annarra manna blogg. Fésbókin er án vafa fjölhæfari en bloggið og þar er hægt að gera fleira. Veldur fíkn segja sumir.

Ég hef reynt að hafa bloggin mín ekki mjög löng. Þau eru samt lengri en fésbókarinnlegg eru yfirleitt. Að sumu leyti eru þau kannski lík blaðagreinum. Þar reyna menn þó að halda sig við eitt efni. Það geri ég ekki. Fésbókin finnst mér vera sambland af sorteruðu bloggi, stuttum athugasemdum og tölvupósti.

Hvað er það sem einkennir mig sem bloggara? Það er sennilega úrvaðelsið úr einu í annað og dönskusletturnar. Þannig slettur eru alveg komnar úr tísku. Margir bloggarar reyna að halda sig við efnið í heilt blogg en mér er alltaf svo mikið niðri fyrir að ég þarf að koma ýmsu að. Jafnvel þó ég bloggi daglega. Hvernig væri ég ef ég bloggaði bara vikulega?

Í seinni tíð er ég svo farinn að taka upp á því að lengja bloggin mín með því að semja örsögur. En ég lofa því að enda bloggir mín alltaf á þeim ef ég set þær hér á annað borð. Þá er auðvelt að sleppa þeim. En mér finnst þær best geymdar á blogginu. Annars týnast þær bara. Eins er það með vísurnar sem ég geri stundum. Þær eru yfirleitt einnota og lítil ástæða til að geyma þær.

Þegar hún Mýsla lamdi á puttana á sér. - Örsaga númer 3.

Þetta byrjaði allt með því að ég sá ofsjónum yfir kjötbollunum sem Angantýr gleypti í sig. Hann var ekki vanur að láta svona. Síður en svo. En í þetta sinn sagðist hann vera sársvangur og ekki hafa bragðar matarbita i tvo daga.

Það var heldur enginn sem hafði sagt mér að flutningadallurinn væri sokkinn. Man ekki einu sinni hvað hann heitir. Eða hét. Skilst að botnventillinn hafi bara gleymst í landi. Sel það samt ekki dýrara en ég keypti.

Á útmánuðum hafði Sigtryggur fengið vörtu á hægri kinnina og þó allt væri gert til að losa hann við hana, náðist hún ekki af. Engum datt í hug að leita læknis enda tók Sigtryggur sjálfur það ekki í mál.

Þannig voru öll teikn sem bentu til þess að grjónagrauturinn hafi verði of heitur þegar reynt var að hella honum ofaní kindurnar í Skjálg. Sumir sögðu reyndar að það hefði bara vantað í hann rúsínurnar til að hann hefði virkað eins og hann átti að gera.

Samt hefði ugglaust verið betra að leyfa aumingjanum honum Bergþóri að hafa sína hentisemi við rögunina. Þá hefði ekki hrunið svona mikið úr bakkanum þegar Jón gamli ætlaði að sækja orma fyrir púddurnar sínar.

Eftir því sem Ólínu var sagt þá hefði alls ekki átt að leyfa stelpunum að baka svona mikið. Það gat enginn étið öll þessi ósköp. Hundurinn náði sér heldur aldrei.

En nú er ég búinn að opna svo marga þræði að ég man ekkert hvað ég ætlaði að segja. Og svo er fyrirsögnin alveg eftir.

IMG 3886Eins og sjá má er Siglingastofnun ríkisins til húsa hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband