1141 - Haust

Eftir dagatalinu að dæma er haustið komið. Það er þó allsekki kalt og ég held að enn sé hægt að tína ber ef veður er sæmilegt. Það orð er dregið af sóma en ekki af mínu nafni. Ef mitt nafn er aftur dregið af sóma (frekar en sjó) þá er það ekki fyrir minn tilverknað. Nei, svona hugleiðingar eiga lítið erindi í blogg. Gat samt ekki stillt mig.

Þetta var semsagt dettingur (eða hugdettingur) sem er líkt orðinu hittingur og alls enginn hráskinnaleikur eins og rætt var um í athugasemdum við síðasta blogg.

Eða eins og segir í gamla húsganginum sem allir kunna:

Allt fram streymir endalaust
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust
horfin sumarblíða.

Haustið hefur enn ekki verið neitt hrímkalt en það á bara eftir að koma. Svo koma jólin og svo fer að vora á ný. En hugsum ekki um það. Njótum bara góða veðursins eins lengi og það endist. Förum í gönguferðir. Haustlitirnir eru fallegir. Drekkum lýsi. Það er meinhollt. Borðum hafragraut. Hann er ódýr núna í kreppunni. Hættum annars að hugsa um hana. Hún er deprímerandi.

Já, ég er í stökustu vandræðum með umfjöllunarefni. Blogga skal ég þó. Og mynd á ég.

Alþingismenn eru að farast úr þakklæti. Því meiri pappír sem fer í skýrslur þeim mun betri eru þær. Þetta vissi ég ekki en veit núna.

Hver var Magister Bibendi og af hverju kemur mér hann skyndilega í hug? Minntist að vísu á hann í einhverjum samsetningi hér um daginn. Man ekki betur en það þýði veislustjóri eða eitthvað þessháttar. Latínuglósa finnst mér það vera. Best að spyrja Gúgla. Besservisserar eins og ég og fleiri höfðum það á margan hátt betra hér áður fyrr þegar Gúglí var ekki svona útbreiddur. Nú geta allir farið þangað og spurt um hvað sem er og fengið fróðleik um það eftir því sem þeir nenna að lesa. Auðvitað veit sá besservisser samt ekki allt en ótrúlega margt.

Svona vitleysa á nú betur heima á fésbókinni en ég tími varla að spandera þessu á hana. Merkilegt hvað mér er fésbókin alltaf hugleikin. Á fésbókina skrifa allir jafnvel þó þeir hafi ekkert að segja og kunni ekki að skrifa. Auðvitað þykist ég vera miklu gáfaðri og merkilegri en það lið.

IMG 2969Listaverk í Austurstræti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Nokkrar hugmyndir um blogg, ég hef bara ekki tíma til að skrifa þau þar sem mikið er að gera í vinnunni:

1. Hvað er andleg samkynhneigð?

2. Af hverju setjum við stundum samasemmerki á milli frestunar á vandamálum og lausn á vandamálum?

3. Ætlum við að láta bankana komast upp með að þvinga fólk úr húsnæðum sínum, í stað þess að fá þá til að skila ránsfengnum?

Hrannar Baldursson, 16.9.2010 kl. 09:34

2 identicon

"Magister bibendi" er drykkjustjóri. Hét einnig "magister bibendum". "Bibo" þýðir ég drekk, á latínu, og "bibere" er nafnháttur sagnarinnar að drekka. (Þetta er ógúggluð vitneskja ;)

Reikna með að nútildags sé þetta kallað veislustjóri, þ.e. á við þann sem ákveður hvenær eigi að skála í veislum.

Harpa 16.9.2010 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband