1135 - Netheimar og kjötheimar

Netlíf okkar er merkilegt. Á ýmsan hátt er það ólíkt jarðbundnu lífi. Þar getur maður verið allt annar en maður er í raunveruleikanum. Þar þarf útlit og önnur slík smáatriði ekki að trufla mann neitt. En hvað er raunveruleiki? Eru netheimar eitthvað óraunverulegri en kjötheimar? Við erum vanari þeim síðarnefndu en eru þeir eitthvað raunverulegri fyrir það? 

Endalaust má bollaleggja um mun þessara tveggja heima. Netheimar hafa vaxið mjög hratt undanfarið og stjórnleysið (og peningaleysið) þar er farið að há sumum. Þá heima er auðveldara að yfirgefa (um stundarsakir) en hina. Vera okkar í kjötheimum er nauðsyn sem enginn kemst hjá og skilyrði fyrir veru okkar í netheimum. Gamaldags draugagangur í netheimum væri samt skemmtilegt viðfangsefni. Margir vilja auðvitað blanda þessum ólíku heimum sem mest saman og hafa þá sem líkasta. Það gengur barasta ekki alltaf og árekstrar milli þeirra verða sífellt algengari.

Netheimar virða fá landamæri. Ef menn eru háðir texta (eins og ég) þá skapa tungumál samt viss landamæri. Möguleikar Netsins eru þó næstum ótæmandi. Ekki hefur þeim enn verið sinnt nema að litlu leyti. Mörgum er hálfilla við allt sem þar er að finna og vilja til dæmis frekar fá sitt andlega fóður eftir hefðbundnum (og úreltum) leiðum.

Er þessa dagana að lesa nýju bókina eftir Þórberg. Mjög framarlega í henni er frásögn af því þegar Sveinn Jónsson ætlar að ganga í sjóinn og fyrirfara sér. Sú frásögn er snilldarleg og eftirminnileg í einfaldleik sínum.

Mér finnst flest merkilegt sem ég skrifa og skil ekkert í því að ég skuli ekki vera meðal vinsælustu Moggabloggara. Stórhaus er ég samt og þakklátur fyrir það. Moggabloggsguðirnir hafa lyft mér á þann stall. Að öðru leyti er ég víst ekkert merkilegur.

Kannski fara hrunfréttir að breytast úr þessu. Sífellt talnastagl að minnka og dómstólafréttir að verða aðalfréttirnar. Útrásarvíkingar og stjórnmálamenn í nýjum hlutverkum sakborninga og munu þá margir kætast. Held að dómar verði samt ekki strangir og varla væntanlegir fyrr en eftir dúk og disk. Næstu þingkosningar (sennilega vorið 2012) geta orðið mjög spennandi sem og aðdragandi þeirra.

IMG 2973Tónlistarhúsið séð úr Bankastræti. Hélt ekki að það væri svona áberandi þaðan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband